Live Science skýrir frá þessu og segir að vísindamenn hafi komist að því að sirkonkristallar úr Jack Hills í Western Australia innihaldi vísbendingar sem bendi til að vatn hafi verið til staðar ekki svo löngu eftir að jörðin myndaðist. Ferskvatn getur aðeins myndast ef land er til staðar þar sem það getur safnast fyrir.
Vísindamenn hafa lengi velt vöngum yfir því hvernig jörðin var saman sett á árdögum hennar. Þegar hún myndaðist fyrir 4,6 milljörðum ára einkenndi fljótandi kvika hana. Tímabilið þar á eftir, þar til fyrir fjórum milljörðum ára, er lítið vitað um. Þó er vitað að kvikan storknaði og myndaði jarðskorpu en hvað gerðist eftir það er ekki vitað nákvæmlega.
Sumir vísindamenn hafa velt því upp hvort jörðin hafi aðallega verið þakin vatni fyrir 4,4 milljörðum ára og styðja þessa kenningu með niðurstöðum rannsókna á elsta sirkoninu sem fundist hefur. En það er ekki vitað hvernig vatn barst til jarðarinnar. Það gæti hafa verið hluti af upprunalegri samsetningu hennar en það gæti líka hafa borist með loftsteinum skömmu eftir að jörðin myndaðist.