Rhian Templeton, fimmtug kona, var ákærð fyrir að kveikja í fötum eiginmanns síns þegar hún komst að því að hann væri byrjaður með bestu vinkonu hennar.
Rhian og eiginmaður hennar voru skilin að borði og sæng og fékk hún vægt áfall þegar í ljós kom að hann var að slá sér upp með vinkonu hennar til fjölmargra ára. Tók hún fötin hans, þar á meðal spariföt og skyrtur, setti þau í hrúgu fyrir utan húsið sitt og kveikti í.
Rhian reyndi að þræta fyrir það að um einhvers konar „hefndaraðgerð“ hefði verið að ræða. Sagðist hún einfaldlega hafa viljað losa sig við gamalt drasl sem hún kærði sig ekki um að eiga.
Dómarinn í málinu hlustaði ekki á þau rök og dæmdi hana til að sinna tólf mánaða samfélagsþjónustu.