Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sagði að tveggja ríkja lausn væri sú eina í stöðunni sem uppi er fyrir botni Miðjarðarhafs. Bætti hann við að bæði Palestínumenn og Ísraelar ættu rétt á að lifa í friði hvort í sínu ríki. „Það verður enginn friður í Mið-Austurlöndum án tveggja ríkja lausnar og það verður engin tveggja ríkja lausn án Palestínu.“
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, tók í svipaðan streng og sagði að margar ástæður lægju að baki ákvörðun Spánverja. Friður, réttlæti og stöðugleiki væru þó grundvallarástæður þess að Spánverjar munu viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu.
Óhætt er að segja að Ísraelar hafi brugðist ókvæða við þessum fregnum og segir Israel Katz, utanríkisráðherra landsins, að þetta sýni að hryðjuverk borgi sig.
„Þessi ákvörðun í dag sendir þessi skilaboð til Palestínumanna og heimsbyggðarinnar: hryðjuverk borga sig,“ sagði hann og vísaði í fjöldamorð Hamas-liða í Ísrael þann 7. október í fyrra. Ísraelsmenn réðust inn á Gaza-svæðið í kjölfarið og hafa tugir þúsunda óbreyttra borgara látið lífið í þeim átökum.
Ísraelsmenn tilkynntu i morgun að sendiherrar ríkisins í Noregi og Írlandi yrðu kallaðir heim vegna ákvörðunar ríkjanna. Gera má ráð fyrir að sendiherra landsins á Spáni verði einnig kallaður heim.
„Ég ætla að senda Írlandi og Noregi skýr skilaboð: Ísrael mun ekki beygja sig fyrir þeim sem grafa undan fullveldi landsins og setja öryggi þess í uppnám. Ísrael mun ekki taka þessu þegjandi og hljóðalaust – það verða alvarlegar afleiðingar.“