Flestir kannast eflaust við að það sé best að slá garðinn reglulega, gæta þess að það lofti vel um blettinn og nota áburð.
En mosinn vex hratt og getur á skömmum tíma lagt garðinn undir sig. Ef ekkert er að gert verður sífellt erfiðara að hafa sigur í baráttunni. Ef þú ert mjög óheppin(n) þá getur hann meira að segja valdið skemmdum á trjám og gróðurhúsi.
Jonas Hemmingsson, hjá Bayer Garden, benti lesendum idenyt á fjögur góð ráð í baráttunni við mosa.
Hann segir að gott sé að bera mosaeyði á garðinn. Eftir tvær vikur verði mosinn orðinn dekkri á litinn sem sé merki um að hann hafi gefist upp. Þá sé auðvelt að fjarlægja hann. Það er hægt að byrja á þessu í mars og apríl þrátt fyrir að jarðvegurinn sé blautur og kaldur.
Ef þú vilt ekki nota tilbúin efni á garðinn þá er líka hægt að nota góða hrífu til að fjarlægja efsta lagið. Þá getur loft og sól leikið um garðinn en það er nauðsynlegt ef gras á að geta sprottið. Þegar búið er að nota hrífuna er rétt að strá grasfræjum yfir garðinn.
Ef þig dreymir um þéttvaxið grænt gras þá þarftu að muna að bera áburð á reglulega. Þegar þú hefur fjarlægt það mesta af mosanum skaltu bera á garðinn. Ef þú berð á þrisvar sinnum yfir sumarið fær grasið góða næringu og þannig styrkist það í baráttunni við mosann.
Til að styrkja grasið skaltu slá garðinn reglulega. Mælir Hemmingsson með að slegið sé að minnsta kosti einu sinni í viku yfir hásumarið. Það geri grasið þéttara og sterkara og skili sér í baráttunni við mosann.