Árið 1985 var eitt það áfallamesta í flugsögunni. Þann 2. ágúst létust 137 manns þegar Lockheed breiðþota Delta flugfélagsins brotlenti þegar hún var að lenda í Dallas í Texas. 27 komust lífs af, og einn þeirra var hinn 12 ára gamli Richard Laver. Faðir hans, tennisþjálfarinn Ian Laver lést í slysinu.
Áfallið var aðeins byrjunin á áföllum sem Richard hefur glímt við: þunglyndi, áfallastreituröskun og heimilisleysi áður en hann sneri lífi sínu við. Hann er í dag 51 árs, kvæntur fimm barna faðir og býr í Park City í Utah. Í dag birtist saga Laver skrifuð af honum sjálfum á vef People.
„Ég er einn af fáum í sögunni sem hefur kastast út úr sprunginni risaflugvél og lifað af. Alríkisflugmálastjórnin sagði að björgun mín hefði ekki átt að geta gerst.“
Laver var á þessum tíma einn besti tennisleikarinn vestanhafs af yngri kynslóðinni. Fjölskyldan bjó í Delray í Flórída og voru þeir feðgar á leið á unglingamót í San Diego þar sem Laver hugðist keppa. „Mig dreymdi drauma tveimur dögum fyrir flugslysið. Ég sagði við Kerry mömmu mín: „Þetta er ekki bara slæm tilfinning. Ég veit að vélin mun hrapa.“ Móðir hans sagði líkurnar á því einn á móti milljón, vélin væri ekki að fara að hrapa.
Feðgarnir gengu síðastir um borð í vélina. „Þegar við flugum yfir Dallas, þegar ferðin var um það bil hálfnuð, leit ég yfir til hægri og sá óveður út um gluggann, dimmt og drungalegt. Pabbi virtist ekki hafa áhyggjur: Hann drakk romm og kók og reykti sígarettu og hló þar sem hann horfði á kúrekamynd
Síðan hægðist á öllu. Ég fór á klósettið og horfði í spegilinn og ég vissi strax að vélin var að fara að hrapa. Ég vissi það. Innri rödd mín sagði: „Ekki setja öryggisbeltið á þig. Og ég setti teppi í kjöltuna svo flugfreyjurnar sæju ekki að ég væri ekki spenntur.
Það sem gerðist næst varð að forsíðufrétt fjölmiðla um allan heim: Flugvélin lenti í vindhöggi sem hluta af örbylgju í óveðrinu. Mér fannst eins og ég væri í lyftu sem féll frá hundruðustu hæð á þá fyrstu. Mikil ringulreið varð um borð og allir öskruðu. Vélin komst aldrei alveg út á flugbrautina, hún rakst í staðinn á nokkra vatnsturna áður en hún varð fyrir sprengingu,“ segir Laver.
Hann kastaðist út úr vélinni og lenti á nálægum akri. „Hagl á stærð við golfbolta sló mig. Andlit mitt brann. Ég gat ekki hreyft mig eða talað. Ég gat ekki öskrað á hjálp. Seinna komst ég að því að ég kastaðist út úr flugvélinni á næstum 500 km hraða – 50 metrum upp í loftið. Þar sem ég lá þar hélt vatnið áfram að hækka í kringum mig vegna óveðursins og bleytti völlinn. Ég byrjaði að spýta vatni. Ég hélt að ég myndi drukkna vegna þess að ég gat hvorki hreyft mig né talað. Þá kom maður á vörubíll, hann skar í gegnum vírgirðinguna og togaði mig upp úr vatninu. Hann sagði við mig: „Það verður allt í lagi með þig sonur.“
Laver heyrði öskrin í farþegunum í brennandi vélinni áður en hann var fluttur með þyrlu á brunadeild Parkland Memorial
Hann rifjar upp að hafa spurt móður sína: „Hvað með þetta eina á móti milljón? Og hún sagði: „Einn daginn munum við vita hver tilgangurinn þinn í lífinu er.“
Laver átti erfitt með að jafna sig tilfinningalega eftir áfallið. Um tvítugt hélst honum ekki á vinnu, hann glímdi við þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun. Í gegnum unglingsárin var hann alltaf hræddur um að eitthvað kæmi fyrir og segir hann óttann hafa rænt hann æskunni.
„Þegar ég var 27 ára var ég búinn að gefast upp og ég átti í rauninni ekki mikla von. Ég vildi bara að lífið myndi enda. Mér leið eins og ekkert hefði raunverulega virkað í lífi mínu. Ég átti ekki peninga til að borga leiguna mína. Ég átti engan bíl. Ég hefði getað hringt í fólk, en ég þurfti að jafna mig á sálinni fyrst. Svo svaf ég á ströndinni í 40 daga. Ég átti um 200 dali, sem entust fyrstu tíu dagana. Vegna þess að fólk þekkti mig og fjölskyldu mín var tiltölulega þekkt, fékk ég að borða frítt á einum bar við ströndina. Síðasta kvöldið mitt á ströndinni öskraði ég af öllum kröftum, hringdi í systur mína og hún keypti flugmiða handa mér.“
Laver flutti til Kaliforníu, gerðist atvinnumaður í tennis á klúbbi í Palm Springs, þar sem hann kynntist Michelle, þriggja barna móður sem var að ganga í gegnum skilnað. „Ég gaf henni nafnspjaldið mitt til að kenna krökkunum hennar. Lífið var að verða betra.“
Laver og Michelle eignuðust dóttur saman, læknar greindu foreldrunum frá því að dóttirin, Katie, hefði fengið heilablóðfall í móðurkviði. „Ég var hamingjusamur faðir dóttur með heilalömun. Síðan kom næsta áskorun, Katie léttist hratt. Ég vissi að ef ég missti Katie, þá gæti ég ekki meira. Ég vissi að með því að bjarga Kate myndi ég líka bjarga sjálfum mér.“
Katie var með ofnæmi fyrir mjólkurvörum og soja og gat ekki tekið upp næringarefnin. Hún var á 3.000 kaloríum á dag og gat ekki fitnað. „Ég bjó til formúlu sem byggir á plöntum og ég kallaði hana upphaflega „Kate’s cream“. Hún fór niður í 1.600 hitaeiningar á dag á formúlunni og þyngdist. Innan 30 daga var hún laus við 90% af lyfjunum. Katie hefur ekki glímt við veikindi síðan en hún verður 18 ára í júlí.“
Laver stofnaði fyrirtækið Kate Farms og vörur þess hafa bjargað mörgum krökkum og fjölskyldum frá angistinni sem fjölskylda hans gekk í gegnum.
„Allt líf mitt var ég hálfgerður utangarðs uppreisnarmaður. Ég vildi segja þá sögu og endurskilgreina hvað heppni er. Það er ekki að vinna í lottó. Heppni er þrautseigja og að gefast aldrei upp. Sagan mín er um strák sem lifir af flugslys, bjargar lífi dóttur sinnar og það er yndislegt líf. Þegar harmleikur dynur yfir er lífi þínu ekki lokið. Þetta er rétt að byrja. Það er tilgangur með þessu öllu. Þú þarft bara að grafa djúpt til að komast að hver tilgangurinn er.“