B.T. skoðaði málið og ræddi við sérfræðinga á þessu sviði. Þeirra á meðal var Birgitte Rahbæk Kornum, sem vinnur við svefnrannsóknir. Hún sagði að vitað sé að konur virðast sofa aðeins meira en það sé hins vegar góð spurning hvort það sé af því að þær þurfi meiri svefn.
Hún sagði að enn hafi engin rannsókn verið gerð á því hvort munur sé á svefnþörf kynjanna.
Hins vegar hafi niðurstöður rannsóknar frá 2021 verið að konur sofi aðeins meira en karlar. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að konur fá betri svefn en karlar en það er samt sem áður ekki það sem þær upplifa.
Í rannsókninni voru um 250.000 manns spurð út í svefntíma. Svör kvennanna sýndu að upplifun þeirra var að þær sváfu aðeins skemur en karlarnir. „Við vitum frá öðrum rannsóknum að fólk á almennt erfitt með að leggja mat á hversu lengi það sefur,“ sagði Kornum.
Það er því ekki hægt að slá því föstu hvort kynið hefur þörf fyrir meiri svefn, ef það er þá munur þar á.