Það er fyrirtækið Horde sem stendur fyrir þessari fjársjóðsleit. „Við erum byrjuð aftur. Á leynilegum stað í Noregi höfum við falið 1.093.072 norskar krónur (það svarar til um 14 milljóna íslenskra króna) fyrir þann sem kemur fyrst,“ segir í tilkynningu frá Horde sem stóð fyrir fjársjóðsleitinni í fyrsta sinn síðasta sumar.
Fyrirtækið, sem veitir fjármálaráðgjöf, vill vekja athygli á hversu margir Norðmenn eru með vaxtaberandi neyslulán. Upphæðin svarar til þess hversu margir Norðmenn eru með neyslulán.
Fjársjóðsleitin vakti mikla athygli á síðasta ári og mörg þúsund manns tóku þátt í henni og fylgdu þeim vísbendingum sem Horde birti reglulega á heimasíðu sinni.
„Þetta vakti mikla athygli. Um leið vöktum við athygli á mikilvægu og stóru vandamáli, það eru há neyslulán. Þess vegna gerum við þetta aftur,“ sagði Alf Gunnar Andersen, stofnandi Horde, í samtali við Dagbladet.
Til að auka spennuna, hefur Horde sett upp vefmyndavél af kassanum.
Það voru þeir Sigurd Sunklakk og Hans Inge Josdal, sem þekktust ekki fyrir, sem fundu kassann á síðasta ári eftir mikla leit í heila viku. Þeir ákváðu að taka höndum saman við leitina og það skilaði þeim milljóninni.
Til að taka þátt í leitinni þarf að hlaða niður appi en það var mest sótta appið í Noregi á síðasta ári.