En Phupongta hafði aldrei í sínum villtustu draumum látið sig dreyma um að þetta starf hennar myndi gera hana sjálfa að milljónamæringi.
Þessu skýrði hún nýlega frá í viðtali við taílenska sjónvarpsstöð eftir að ljóst var að Delacot, sem lést fyrir ekki svo löngu, hafði arfleitt hana að öllum auð sínum.
Bild skýrir frá þessu og segir að Delacot hafi flutt í lúxusvillu sína á Koh Samui ásamt eiginmanni sínum, sem var einnig franskur, fyrir mörgum árum.
Delacot var mjög rík, átti meðal annars tvö fjölbýlishús sem hún leigði út.
Hjónabandið fór út um þúfur og hún sat ein eftir í húsinu sem stendur á 3.200 fermetra lóð. Þar eru fimm sumarhús og sundlaug og leigði hún húsin út til ferðamanna.
Phupongta kom daglega til að sjá um þrif og aðra praktíska hluti fyrir Delacot.
Á mánudag í síðust viku kom maðurinn, sem sér um að þrífa sundlaugin, að Delacot látinni á pallinum við húsið. Hún lá í sólstól og var með skotsár vinstra megin á enninu og byssupúður á vinstri höndinni. Við hlið hennar lá skammbyssa, vodkaglas, sígarettur og eitt byssuskot.
Hún keypti byssuna eftir að brotist var inn til hennar. Lögreglan telur að hún hafi svipt sig lífi en skömmu áður sagði hún Phupongta að hún væri með krabbamein.
Áður en hún lést millifærði hún 500.000 taílensk baht, sem svarar til tæplega tveggja milljóna íslenskra króna, inn á bankareikning Phupongta til að hún gæti greitt fyrir útför vinnuveitanda síns.
Hún sendi einnig mörgum vinum sínum skilaboð þar sem hún sagðist ætla að arfleiða Phupongta að eigum sínum.
Samtals eru eignir hennar metnar á sem svarar til um 800 milljóna íslenskra króna.