Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Hún sýnir að þeir sem ganga reglulega upp stiga eru í minni hættu á að deyja ótímabærum dauða. 24% minni líkur eru á ótímabærum dauða ef fólk venur sig á að ganga upp stigann og er þá miðað við hvaða dánarorsök sem er. Ef aðeins er horft á hjartaáfall, hjartabilun og heilablóðfall þá eru líkurnar á ótímabærum dauða 39% minni.
Metro segir að vísindamenn segi að niðurstöðurnar bendi til að ekki þurfi nema skammvinna áreynslu, eins og að ganga upp stiga, til að draga úr líkunum á ótímabærum dauða.
„Ef þú hefur val á milli þess að ganga upp stigann eða nota lyftuna, þá skaltu velja stigann því það er gott fyrir hjartað,“ hefur Metro eftir Dr. Sophie Paddock.
Rannsóknir benda til að regluleg hreyfing geti dregið úr líkunum á ótímabærum dauða og hjartasjúkdómum.
Í nýju rannsókninni var byggt á gögnum úr níu eldri rannsóknum sem náðu til rúmlega 480.000 manns á aldrinum 35 til 84 ára. Bæði heilbrigt fólk og hjartasjúklingar voru teknir með í greininguna. 53% þeirra voru konur.
Auk þess að draga úr líkunum á ótímabærum dauða reyndist stigaþramm draga úr líkunum á því að fólk fengi hjartasjúkdóma.
Paddock sagði að út frá niðurstöðunum vilji rannsakendurnir hvetja fólk til að gera stigaþramm að hluta af daglegu lífi. „Rannsóknin okkar bendir til að þeim mun oftar sem gengið er upp stiga, þeim mun meiri áhrif en það þarf að rannsaka þetta betur. En, hvort sem það er heima eða annars staðar, notið stigana,“ sagði hún.