Í myndbandinu segir konan, Ashley, að dóttir hennar hafi talað um dularfullt hljóð úr einum vegg á heimili þeirra fyrir skemmstu. Sagði hún að hljóðið minnti hana einna helst á „skrímsli“ í veggnum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að í góðu yfirlæti inni í veggnum voru hvorki fleiri né færri en 50 þúsund býflugur. Hátt í tíu milljónir notenda TikTok hafa horft á myndband Ashley sem minnir einna helst á atriði úr hryllingsmyndinni Candyman.
Meindýraeyðir var kallaður á vettvang og fyrsta daginn fjarlægði hann 20 þúsund býflugur og 45 kíló af hunangi og vaxi meðal annars. Næstu tvo daga þar á eftir tókst honum að fjarlægja um 30 þúsund flugur.
Ashley segist ekki vita hvernig flugurnar komust á bak við vegginn en ljóst má vera að þær hafi athafnað sig þar tiltölulega áhyggjulausar um margra mánaða skeið.
Ashley segir að tryggingafélagið hennar hafi neitað að greiða fyrir það tjón sem varð á húsinu þar sem um „utanaðkomandi atburð“ var að ræða.
Eins og áður segir hefur myndband Ashley vakið mikla athygli og sitt sýnist hverjum. „Í hreinskilni sagt myndi ég frekar vilja hafa skrímsli inni í veggnum hjá mér en 50 þúsund býflugur,“ sagði einn í athugasemd við myndbandið.
@classashley What nighthmares are made of #bees #toddlersoftiktok #toddlers ♬ Oh No – Kreepa
Hér má sjá myndböndin sem Ashley birti á TikTok.