Þetta kom fram fyrir dóm í Englandi nýlega. Sky News skýrir frá þessu og segir að pilturinn sé einnig ákærður fyrir að hafa lamið kennara í höfuðið með hamri eftir að hann réðst á piltana tvo. Þetta gerðist í Blundell‘s School í Tiverton í Devon.
Pilturinn var 16 ára þegar þetta átti sér stað. Hann segist hafa gengið í svefni þegar hann gerði þetta. Hann var aðeins í nærbuxum og var vopnaður fjórum klaufhömrum og beið eftir að piltarnir sofnuðu áður en hann réðst á þá aðfaranótt 9. júní á síðasta ári.
Kennari vaknaði við lætin í svefnsalnum þegar pilturinn réðst á skólabræður sína og fór að kanna málið. Réðst pilturinn þá á hann og barði í höfuðið með hamri.
Aðrir nemendur reyndu að róa piltinn niður og sagði hann þeim að hann hefði verið að horfa á hryllingsmyndir og væri með vopn til að undirbúa sig undir „uppvakningaheimsendi og til að vernda sjálfan sig“.