Gary Knight, lögreglustjóri á svæðinu, segir við bandaríska fjölmiðla að flest bendi til þess að um fjölskylduharmleik hafi verið að ræða. Telur lögregla að fjölskyldufaðirinn, Jonathan Candy, 42 ára, hafi myrt eiginkonu sína, Lindsay Candy, 39 ára, með skotvopni áður en hann myrti þrjá af fjórum sonum sínum sem voru 12, 14 og 18 ára. Hann er talinn hafa svipt sig lífi í kjölfarið.
Knight telur að Jonathan og Lindsay hafi rifist heiftarlega á sunnudagskvöldið eða aðfaranótt mánudagsins og það hafi endað með þessum ólýsanlega harmleik. Hvers vegna hann réðst að þremur af fjórum sonum sínum liggur ekki fyrir.
Lögregla hafði aldrei haft nein afskipti af þessari tilteknu fjölskyldu og þá hafði Jonathan ekki áður komist í kast við lögin.
Unga drengnum var komið fyrir hjá fjölskyldumeðlimum og hefur Knight eftir honum að hann hafi sofið af sér skothvellina. Engin ástæða sé til að efast um þá frásögn hans. „Hann hringdi svo í 911 þegar hann vaknaði og fann líkin,“ segir hann.