Hin níu ára gamla Amy Lynn Modrow lést 17. febrúar eftir vikudvöl á gjörgæsludeild í Minneapolis. Miðvikudaginn 17. apríl voru foreldrar hennar, Anthony og Rachel Modrow, ákærð fyrir annars stigs manndráp og sökuð um að hafa valdið dauða Amy af gáleysi.
Amy var með astma og þann 9. febrúar gisti hún hjá vinkonu sinni þegar hún byrjaði að fá astmakast í svefni. Vinkona hennar vaknaði og tók eftir að Amy leið illa og lét móður sína vita. Amy var með astmapúst með sér en móðir vinkonunnar varð sífellt áhyggjufyllri þegar pústið var ekkert að hjálpa Amy. Hringdi hún í Anthony, sem stundi af óþolinmæði og rétti konu sinni símann, sem sagði móður vinkonunnar að senda Amy heim. Móðir vinkonunnar bauðst til að fara með Amy til læknis en foreldrar hennar höfnuðu því boði.
Klukkan 7.09 sendi Amy móður sinni sms og bað um astmapúst og þegar hún kom heim klukkan 7:30 átti hún erfitt með andardrátt, gat varla gengið og bað um að fá að fara til læknis. Móðir hennar gerði ekkert fyrr en klukkan tíu þegar hún loksins hringdi í fjölskylduvinkonu og bað hana að koma og skoða Amy. Vinkonan kom og þá var húðin á Amy orðin blá, hún gat ekki lyft handleggjunum og var hágrátandi. Móðir hennar lét renna í bað fyrir hana. Vinkonan krafðist þess að Amy færi á sjúkrahús og greip hana að lokum í fangið, bar hana út á bílastæði íbúðarhússins og hringdi í neyðarlínuna klukkan 10.40. Sjúkraliðar mættu ekki fyrr en klukkan 10.57 og sinntu þeir Amy á bílastæðinu áður en þeir fluttu hana á sjúkrahús.
Þar dvaldi Amy í viku og meðan hún barðist fyrir lífi sínu birtu foreldrar hennar færslur um ástand hennar á samfélagsmiðlum og báðu um framlög og söfnuðu yfir 10 þúsund dölum.
„Barnið mitt berst fyrir lífi sínu eftir alvarlegt astmakast. Hjálpaðu okkur,“ skrifaði Rachel á X.
Eftir að Amy lést birti Rachel færslu á X og taggaði atvinnuglímukappann Rebecca Quinn.
„Níu ára dóttir mín lést nýlega, hún var einn af stærstu aðdáendum þínum. Þú hafðir svo mikil áhrif á hana. Þú varst hetjan hennar. Þakka þér fyrir að gefa henni einhvern til að líta upp til. Hún vildi alltaf fara á Wrestlemania,“ skrifaði hún. Færslunni fylgdi mynd af Amy á sjúkrahúsinu, tengd við vélar með slöngu niður í hálsinn á henni.
@BeckyLynchWWE my 9 year old just passed away, she was one of your biggest fans. You made such a impact on her. You were her hero. Thank you giving her someone to look up to.
She always wanted to go to wrestlemania#thankyoubecky,
Lets get this message seen #beckylynch #WWE pic.twitter.com/8VCReAj4nV
— Rachel Modrow (@TheRealSwurge) February 17, 2024
Anthony birti röð af Facebook-færslum eftir andlátAmy þar sem hann lýsti sorg sinni.
„Það er opinbert að Amy hefur ekki fengið neina deyfingu og hefur ekki vaknað. Hún er heiladauð. Þeir gefa henni til sunnudags fyrir líffæragjöf. Ég þarf að fara heim, þetta er svo sárt. Ég er búinn að kveðja hana,“ skrifaði hann daginn sem hún lést.
Saksóknarar hafa það eftir barnalæknum sem þeir ráðfærðu sig við að Amy hefði átt mun betri möguleika á að lifa af ef foreldrar hennar hefðu farið strax með hana á sjúkrahús. Þeir sögðu einnig að gufubað væri ekki viðurkennd meðferð við astmakasti. Haft er eftir Anthony að Amy hafi sagt honum mánuði fyrir andlát hennar að astmapústið hennar væri tómt, en hann fyllti aldrei á það. Hjónin mættu fyrir dómstól á fimmtudag þar sem trygging var ákveðin 25 þúsund dalir, nái hjónin að greiða hana munu þau vera í stofufangelsi þar til dómur fellur.