Tvennt er það sem mátti helst ekki gerast. Það er að hin bráðsmitandi fuglaflensuveira H5N1 bærist í mjólkurkýr í sex ríkjum í Bandaríkjunum og hitt er að sama veira bærist í manneskju en hún greindist í starfsmanni bóndabæjar í Texas.
Veiran hefur breiðst leifturhratt út meðal fugla um allan heim og nú hefur hún stokkið yfir í spendýr. Þetta eykur hættuna á að heimsfaraldur meðal manna brjótist út.
Jótlandspósturinn skýrði frá þessu og hafði eftir Lone Simonsen, sóttvarnalækni, að hún hafi áhyggjur af þessu. „Mér líkar ekki við þetta. Við höfum nú þegar séð að nýtt afbrigði af þessari veiru hefur borist í ketti, kýr, seli, mink, refi og önnur spendýr um allan heim. Þetta er nýtt fyrir H5N1, sem var áður aðeins vandamál fyrir fugla. Þess vegna hafa ég og margir kollegar mínir áhyggjur,“ sagði hún.
Smitin á bandarísku býlunum eru hluti af smitum af völdum H5N1 á heimsvísu sem hófust 2020. Yfirstandandi faraldur er mun stærri en fyrri faraldrar þessarar sömu veiru.
Í Bandaríkjunum einum hefur veiran borist í rúmlega 82 milljónir alifugla. Hún hefur auk þess greinst í rúmlega 9.000 villtum fuglum. Í mars fundust mörg hundruð dauðar mörgæsir á Suðurskautslandinu. Vísindamenn óttast að H5N1 hafi orðið þeim að bana en niðurstöðu rannsókna á þeim er enn beðið.
Þetta er mjög alvarlegt en þegar veiran barst í spendýr í spænsku minkabúi og síðar finnsku minkabúi og olli þess utan fjöldadauða sela, fóru margir vísindamenn að hrukka ennið.
Þeir óttast að veiran sé komin í nokkurs konar þjálfunarbúðir í þessum spendýrum og það geti valdið því að hún stökkbreytist meira og fái þær stökkbreytingar sem til þarf til að hún geti hugsanlega dreift sér af krafti meðal fólks.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að frá 1966 hafi 888 tilfelli H5N1 í fólki verið staðfest. Um helmingur fólksins lést af völdu veirunnar.
Versta sviðsmyndin er að H5N1 lagi sig að fólki og úr verði heimsfaraldur. Einn versti heimsfaraldur sögunnar er Spænska veikin sem herjaði frá 1918 til 1920 og varð um 50 milljónum manna að bana. Talið er að fuglaflensuveira, sem stökkbreyttist til að aðlagast mannslíkamanum, hafi valdið henni.
Einnig er hætta á að fuglaflensan og mannaflensa blandist en það getur gerst ef spendýr er sýkt af báðum samtímis. Önnur afbrigði fuglaflensu hafa áður blandast við mannaflensu og valdið heimsfaraldri. Það gerðist 1957 og 1968.
Simonsen sagði að hættan á að H5N1 „stökkvi“ yfir í fólk sé til staðar en erfitt sé að segja til um hversu mikil hættan er. Hún hafi hins vegar aukist á síðustu árum.
Hún sagðist einnig hafa áhyggjur af aldri þeirra 888 sem staðfest hefur verið að hafi smitast af veirunni.
„Þetta eru ekki margir en það var aðallega fólk, sem fæddist eftir 1968, sem smitaðist og dó. Það er eins og eldra fólk sé verndað á einhvern hátt. Ef þetta yrði að faraldri meðal fólks, gæti þetta orðið nokkurs konar öfug kórónuveira,“ sagði hún.