fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Einn ríkasti maður Þýskalands sagður hafa sviðsett dauða sinn fyrir sex árum

Pressan
Miðvikudaginn 17. apríl 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 7. apríl 2018 hélt þýski milljarðamæringurinn Karl-Erivan Haub einn af stað frá hóteli sínu í Zermatt í Sviss til að fara á skíði. Karl var vanur fjallaskíðamaður og var í Sviss til að búa sig undir skíðamót. Eftir að hafa haldið af stað frá hóteli sínu þennan kalda morgun hefur ekkert til hans spurst og var hann úrskurðaður látinn af þýskum dómstólum vorið 2021.

Karl-Erivan Haub var 58 ára, fæddur í Washington í Bandaríkjunum og auðgaðist verulega á fjölskyldufyrirtækinu Tengelmann Group sem rekur fjölmargar verslanir í Þýskalandi og Austurríki. Haub-fjölskyldan er ein sú ríkasta í heimi.

Daily Mail rekur sögu Karls og segir frá því að það hafi að mörgu leyti verið óvenjulegt þegar hann ákvað, einn síns liðs, að halda upp í brekkurnar í Zarmatt daginn sem hann hvarf. Karl var vanur því að fara mjög varlega og vandi sig á að hafa einhvern með sér þegar hann fór út í óbyggðirnar.

Sagður hafa sést í Moskvu

Umfangsmikil leit var gerð að Karli eftir að hann hvarf en hún var blásin af eftir sex daga þar sem engar vísbendingar fundust um ferðir hans. Í maí 2021 var hann úrskurðaður látinn og lét hann eftir sig eiginkonu, tvö börn og fyrirtæki sem 75 þúsund manns störfuðu fyrir.

Fyrir dómi fullyrti yngri bróðir hans, Christian, að engar líkur væru á því að bróðir hans væri á lífi.

Þýska sjónvarpsstöðin RTL hefur kafað ofan í hvarf hans og segir að hann hafi sést á lífi í Moskvu fyrir skemmstu. Telur miðillinn að Karl sé búsettur í Rússlandi ásamt ungri ástkonu sinni, Veroniku Ermilovu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessu er haldið fram en Karl er sagður hafa sést á eftirlitsmyndavélum í Moskvu árið 2021. Fékk þýska blaðið Stern upptökurnar úr eftirlitsmyndavélinni frá einstaklingi sem hefur tengsl við rússnesku leyniþjónustuna, FSB.

Kom hann sér í klandur?

Nú hefur saksóknaraembættið í Köln hafið rannsókn á því hvort bróðir Karls, Christian, hafi sagt vísvitandi ósatt þar sem hann var eiðsvarinn fyrir dómi árið 2021. Christian tók við stjórn Tengelmann Group eftir andlát bróður síns og ef eitthvað er að marka kenningar saksóknara virðist hann hafa vitað að eitthvað misjafnt væri á seyði. Þessu hefur lögmaður Christians að vísu hafnað staðfastlega.

Í rannsókn RTL kemur fram að Karl, sem í dag væri 64 ára, hefði hringt 13 sinnum í Veroniku á þeim þremur dögum sem liðu fram að hvarfi hans. Eitt símtalið stóð yfir í rúma klukkustund og hefur þetta vakið spurningar um það hvort Karl og Veronika hafi lagt á ráðin um að sviðsetja hvarf hans og dauða. Rannsókn á símagögnum hans leiddi einnig í ljós að dagana fyrir andlát hans átti hann í samskiptum við rússneskan bankastarfsmann.

Þess er getið í umfjöllun RTL að Veronica hafi meðal annars starfað fyrir FSB. Liv von Boetticher, blaðakona RTL, segir að hvarf Karls í Sviss árið 2018 hafi mögulega haft eitthvað með vafasöm viðskipti hans í Rússlandi að gera. Hann hafi átt í viðskiptum við Rússland og þessi viðskipti hafi mögulega komið honum í einhvers konar klandur á Vesturlöndum.

„Ég er handviss um að þetta hafi ekki verið skíðaslys heldur þaulskipulögð sviðsetning,“ segir Liv.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Dýrahirðirinn gerði afdrifarík mistök

Dýrahirðirinn gerði afdrifarík mistök
Pressan
Fyrir 2 dögum

Myndband sýnir björgun fanga úr fangelsi í Sýrlandi – Hafði verið fjóra mánuði í gluggalausum klefa

Myndband sýnir björgun fanga úr fangelsi í Sýrlandi – Hafði verið fjóra mánuði í gluggalausum klefa
Pressan
Fyrir 3 dögum

Víðtæk leit að búum „morðgeitunga“ – Sáust í Evrópu í fyrsta sinn

Víðtæk leit að búum „morðgeitunga“ – Sáust í Evrópu í fyrsta sinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“

Stefnulýsing Mangione birt – „Ég biðst afsökunar á þeim erfiðleikum og þjáningum sem ég hef valdið en þetta þurfti að gerast“
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking
Pressan
Fyrir 4 dögum

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad