Það sem sést á myndinni er eftirlíking af taívönsku forsetahöllinni og nærliggjandi vegum. Þessi eftirlíking var reist á æfingasvæði kínverska hersins í Innri Mongólíu.
Margir spyrja sig hvort þetta sé merki um að Xi Jinping, forseti Kína, sé nú að leggja lokahönd á undirbúning innrásar í Taívan?
Kínverskir ráðamenn fara ekki leynt með þann vilja sinn að leggja Taívan undir sig en lýðræðisríkið er þeim mikill þyrnir í augum og allt tal um sjálfstæði þess fer illa í kínverska ráðamenn. Stefna kínversku ríkisstjórnarinnar er alveg skýr: Taívan er „heilagur hluti“ af Kína og sameining Taívan og meginlands Kína er óumflýjanleg. Xi Jinping tók þetta skýrt fram í nýársávarpi sínu til kínversku þjóðarinnar.
William Burns, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, segir þetta ekki aðeins vera tóm orð og hótanir, hér búi alvara að baki. Fyrir um ári síðan sagði hann að Xi Jinping hafi sett sér það markmið að kínverski herinn verði fær um að ráðast á Taívan 2027 og ná eyríkinu á sitt vald. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók undir þetta og sagði þetta vera raunhæft mat hjá Burns.