Sjö ára stúlka í Alabama gæti talist efnilegur sölumaður eftir að hún seldi límonaði fyrir 1,4 milljón. Ástæðan fyrir sölunni er þó þyngri en tárum taki, en Emouree Johnson missti móður sína í mars og til að heiðra móður sína vildi hún koma upp fallegum legstein við gröf hennar.
Samfélagið í bænum Scottsboro var ekki látið ósnert eftir að Emouree litla hóf söfnunina. Límonaðisalan hefur því líklega slegið öll sölumet barna í bænum.
Emouree er lýst sem stúlku í 2. bekk sem er með bros sem getur breytt myrkri í ljós. Límonaðistandur hennar sé orðið tákn bæjarins um von og náungakærleik.
„Ég vissi ekki að það eitt að búa til smá límonaði myndi enda með því að svona margir kæmu í heimsókn. Það er gaman, en ótrúlegt á sama tíma,“ sagði litla stúlkan í samtali við fjölmiðla.
Amma stúlkunnar ræddi við blaðamenn með gleðitár í augum. Viðbrögð samfélagsins séu að hjálpa dótturdóttur hennar að vinna úr sorginni.
„Þetta er að hjálpa henni í gegnum þetta. Ég veit að mamma hennar er að horfa niður til hennar og er svo stolt“
Fólk hefur ekki látið sér nægja að kaupa límonaði heldur hefur einnig mætt til stúlkunnar með föt, mat og allt sem gæti framkallað 1000watta brosið.
„Ég er bara slegin og hef grátið gleðitárum. Ég finn frið og hamingju því allir hafa komið til að styðja litla ömmubarnið mitt. Þetta er það sem ég þráði fyrir hana – að hún væri ekki hryggbrotin því það er mitt hlutverk,“ sagði amman. „Ég vona að dóttir mín geti séð hversu frábært þetta er og hversu dásamlega dóttur hún lætur eftir sig. Takk öll og takk Guð því þetta er það sárasta sem ég hef upplifað og þetta samfélag okkar hefur virkilega hjálpað mér.“