Árið 2015 kaus tungumálanámskeiðið Babbel franskan hreim sem þann kynþokkafyllsta í heimi og öldum saman hafa rithöfundar, cancan-dansarar og nærfataframleiðendur hagnast vel á því að tengja Frakkland við rómantík.
En nú er öldin önnur því ný könnun barði sjálfsvitund Frakka á þessu sviði langt niður. Hún leiddi í ljós að Frakkar eru í stórum stíl hættir að stunda kynlíf. Jótlandspósturinn skýrir frá þessu og segir að könnunin hafi verið gerð af Ifop fyrir framleiðanda kynlífsleiktækja.
Hún leiddi í ljós að þetta á við um alla aldurshópa, meira að segja yngsta aldurshópinn. Um helmingur fólks á aldrinum 18 til 34 ára, sem er í sambandi, sagðist hafa hafnað kynlífi með makanum því það vildi frekar horfa á sjónvarpið, skoða samfélagsmiðla, spila tölvuleiki eða lesa.
Tölurnar hjá aldurshópnum 18 til 24 ára þykja mikið áhyggjuefni. 28% sögðust ekki stunda kynlíf og er þetta mikil breyting frá 2006, þegar svipuð könnun var gerð, en þá var hlutfallið 5%.
Fjórði hver Frakki á aldrinum 18 til 69 ára hafði ekki stundað kynlíf með neinum síðustu 12 mánuði. Hjá körlum var hlutfallið 22% og 26% hjá konum. Þetta er 15% aukning frá könnuninni 2006.
Í aldurshópnum 50 ára og eldri hefur þeim fjölgað mikið sem stunda ekki kynlíf eða úr 10% 2006 í 35%.
Í heildina sögðu 43% að þau stundi kynlíf minnst einu sinni í viku en 2006 var hlutfallið 58%.
41% fullorðinna Frakka sögðust ekki stunda kynlíf.
Francois Kraus, forstjóri kynja- og kynferðisdeildar Ifop, telur að þessi breyting sé í takt við það sem á sér stað í öðrum löndum, til dæmis Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Í samtali við útvarpsstöðina RFI sagði hann að ástæðurnar séu flóknar, þær telji allt frá samfélagsmiðlum til samfélagslegra breytinga, andlegs heilbrigðis og mengunar. Hann nefndi sérstaklega að farsímar steli dýrmætum tíma sem sé annars hægt að nota til að stunda kynlíf.
„Bylting á sér stað hvað varðar samþykki og hugmyndin um hjónabandsskyldur er að vissu leyti úr sér gengin. Sérstaklega konur þvinga sig ekki lengur til að stunda kynlíf bara fyrir makann,“ sagði Kraus.
Í könnun, sem var gerð 1981, sögðust 76% aðspurðra kvenna að þær stunduðu kynlíf þótt þær langaði ekki til þess. Talan er nú komin niður í 52%.
Annað merki um að breytingar eru að eiga sér stað á samfélagslegum gildum, þar á meðal hugmyndirnar um hvað sé eðlilegt eða viðurkennt, er að 12% aðspurðra segjast vera með litla eða enga kynlífslöngun. Þetta á við um 15% kvenna og 9% karla.
Kraus sagði að minna kynlíf séu viðbrögð við „ofurkynlífsþróun“ sem átti sér stað á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Þá var kynlíf allsráðandi í poppmenningunni og niðurstaðan var að gott og heilbrigt kynlíf byggðist á því að stunda eins mikið kynlíf og hægt væri. Nýja kynslóðin taki sér stöðu fjarri því sem síðasta kynslóð gerði. Þá hafi klám og kynlífsleiktæki orðið meira áberandi og veiti fólki tækifæri til að svala kynlífsþörf sinni.
Hjá unga fólkinu er hluta af skýringunni á minna kynlífi að finna í auknum andlegum vandamálum. Samkvæmt nýrri könnun, sem útvarpsstöðin France Inter skýrði frá, þá glíma 4 af hverjum 10 Frökkum á aldrinum 18 til 24 ára við miðlungs til mikið þunglyndi. Unga fólkið upplifir einkenni á borð við kvíðaköst, svima, svefnleysi og dökkar hugsanir.
Áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á var hlutfall, þeirra sem glíma við þunglyndi í þessum aldurshópi, 26%. Hlutfallið hefur því aukist um 15 prósentustig á aðeins fjórum árum. Sjálfsvígshugsanir leita á 29% fólks í þessum aldurshópi samanborið við 21% fyrir heimsfaraldur.
Meirihluti kvenna og karla segir að ástæðan fyrir skorti á kynlífslöngun sé að það vanti rétta makann. Rúmlega 60% karla sögðust ekki hafa hitt neinn sem vill stunda kynlíf með þeim.