Fornleifafræðingar notuðu ratsjá, sem tekur myndir neðanjarðar, til að rannsaka eyjuna og fundu ummerki um það sem virðast vera niðurgrafin hús og bryggjur. Þetta þykir benda til að þarna hafi verið markaðssvæði á víkingatímanum.
Live Science segir að vísindamenn telji að þarna hafi verið markaðssvæði frá því um 793 til 1066 og aðrar uppgötvanir á svæðinu benda til að svæðið hafi verið mikilvægt fyrir íbúana löngu fyrir þennan tíma.
Kristoffer Hillesland, hjá fornleifafræðideild háskólans í Stavangri, sagði í samtali við Live Science að líklega hafi svæðið verið valdamiðstöð á járnöld eða frá um 500 til 800. Hann benti einnig á að nokkrar stórar dysjar frá þessum tíma séu nærri svæðinu.
Hann sagði að markaðssvæðið hafi líklega verið byggt síðar, hugsanlega þegar eyjan var rekin sem bóndabýli fyrir Harald hárfagra sem var konungur frá 872 til 930. Síðan var munkaklaustur reist þarna á miðöldum.
Hillesland sagði að klaustrið geti verið merki um að svæðið hafi verið valdamiðstöð því kristnar stofnanir í Skandinavíu hafi oft verið reistar á þannig stöðum.