Tuttugu stiga frost var þegar leikurinn fór fram og það hafði sitt að segja fyrir áhorfendur. Aflima varð marga að sögn Christine Hamele, varaforstjóra HCA Midwest Health sem rekur sjö sjúkrahús í Kansas þar sem leikurinn fór fram.
NBC News skýrir frá þessu og hefur eftir Hamele að nú þegar hafi þurft að aflima 12 áhorfendur. 30 manns þurftu að fá meðferð vegna kals eftir leikinn. Þeir 12 sem hefur þurft að aflima eru ekki endilega meðal þessara 30 sagði Hamele og skýrði það með að sumir þeirra hafi ekki leitað á sjúkrahús fyrr en síðar því þeir hafi talið að kalið myndi jafna sig.
15 áhorfendur, þar af 10 með einkenni kals, voru fluttir á sjúkrahús strax að leik loknum en aðrir leituðu þangað síðar.
Fyrir áhugasama má geta þess að Kansas City Chiefs sigruðu í leiknum, 26-7.
Leikurinn fór fram í fjórða mesta frosti sem mælst hefur í leik í NFL frá upphafi. Mesta frostið var 1967 þegar Green Bay Packers sigruðu Dallas Cowboys í 25 stiga frosti.