Bild skýrir frá þessu og segir að á fyrsta degi réttarhaldanna hafi hryllilegar upplýsingar komið fram um óhugnanlegar fantasíur mannsins. Hann hefur nú þegar játað að hafa banað 17 ára stúlku en auk morðsins á henni er hann ákærður fyrir tvær morðtilraunir.
Óhætt er að segja að það sem kom fram á fyrsta degi réttarhaldanna sé ekki fyrir viðkvæma. Samkvæmt því sem Annette Marquardt, saksóknari, sagði þá hratt Andreas ofbeldisfantasíum sínum í framkvæmd í september á síðasta ári.
Hann byrjaði á að horfa á klámmyndir þar sem bundnar konur og dýr komu við sögu. Því næst ók hann af stað í bíl sínum í leit að fórnarlömbum. Marquardt sagði það vera skoðun mannsins að konur eigi ekki rétt á að lifa og það eigi að slátra þeim eins og „veikum svínum“.
Hin 17 ára Mara-Sophie, sem var á hjólaskautum, varð fyrst á vegi hans og réðst hann á hana og skar hann á háls með vasahníf. Því næst henti hann henni ofan í skurð þar sem henni blæddi út og drukknaði um leið.
Síðan hélt hann för sinni áfram og reyndi að stinga aðra konu til bana og aka á þá þriðju. Þær lifðu árásirnar af.
Vitni hringdu í lögregluna sem fann Andreas og handtók.
Marquardt sagði að ástæðan fyrir þessum hryllilegu árásum sé djúpt og innilegt hatur Andreas í garð kvenna. Að sögn fór það svo illa í hann að stúlka, sem hann varð ástfanginn af í grunnskóla, var þá þegar í sambandi við annan pilt. Upp úr þessu óx skelfilegt kvenhatur innra með honum.
„Hann leitaði að fórnarlömbum sem líktust fyrrum skólasystur hans, til að hefna sín á henni,“ sagði Marquardt.
Réttarhöldunum verður framhaldið næstu daga.