Sky News segir að Hochul hafi sagt að þjóðvarðliðarnir muni aðstoða lögregluna við að skoða í farangur farþegar við innganga að lestarstöðvum. „Fyrir þá sem eru að hugsa um að taka byssu eða hníf með í neðanjarðarlestina, þá er fælingarmáttur í þessu,“ sagði hún á fréttamannafundi.
Hún lagði einnig til að fólki, sem er sakfellt fyrir líkamsárásir í neðanjarðarlestarkerfinu, verði bannað að nota neðanjarðarlestir í þrjú ár. Hún sagði einnig að eftirlitsmyndavélum verði komið upp í stýrishúsum lestanna til að vernda ökumenn þeirra og annað starfsfólk.
Fyrr á árinu var tilkynnt að fjölgað yrði um 1.000 lögreglumenn sem sinna gæslu í neðanjarðarlestarkerfinu.
Til viðbótar þjóðvarðliðunum 750 tilkynnti Hochul að 250 lögreglumenn úr lögreglu ríkisins verði kallaðir til aðstoðar lögreglunni í borginni.
Donna Lieberman, framkvæmdastjóri New York Civil Liberties Union, sagði af þessu tilefni að þetta sé „enn eitt óheppilegt dæmið um stefnu sem byggist á of hörðum viðbrögðum“.
Í heildina tekið þá hefur glæpum fækkað í borginni síðan þeir náðu hámarki í heimsfaraldrinum og morðum í neðanjarðarlestarkerfinu hefur fækkað. Um þrjár milljónir farþega nýta sér neðanjarðarlestarkerfið daglega.