Það sem gerðist þennan dag var að rauðri Ferrari Testarossa F512 bifreið hans var stolið við hótelið sem hann gisti á. Hann sá þegar bifreiðinni var stolið og reyndi að stöðva þjófinn með því að stilla sér upp fyrir framan bílinn. En þjófurinn lét það sig engu skipta og ók áfram og neyddist Berger til að stökkva frá á síðustu sekúndu. Samkvæmt fréttum fjölmiðla á þessum tíma þá munaði aðeins nokkrum sentimetrum að þjófurinn æki á Berger.
Berger hoppaði þá inn í Volkswagen Golf bifreið og elti bílinn sinn en þrátt fyrir að búa yfir miklum hæfileikum og akstursreynslu þá hvarf Ferrari bifreiðin sýnum eftir skamma stund.
Þennan sama dag var Ferrari Testarossa bifreið Jean Alesis, sem keppti einnig í Formúlu 1, stolið frá þessu sama hóteli.
Ekkert spurðist til bílanna eftir þetta, fyrr en í síðustu viku. Þá fann Lundúnalögreglan bíl Berger. Hún fékk ábendingu frá Ferrari í janúar um að Bandaríkjamaður væri að kaupa bílinn frá breskum aðila. Ferrari hafði kannað bílinn fyrir kaupandann og fannst sem ekki væri allt eins og það átti að vera varðandi bílinn og lét Lundúnalögregluna því vita.
Eftir stutta rannsókn lögreglunnar kom í ljós að þetta var bíll Berger og að hann hafði verið sendur til Japan eftir að honum var stolið. Þaðan kom hann síðan til Bretlands.
Ferrari Testarossa F512 er þekkt merki, meðal annars vegna þess að bifreið af þessari tegund var notuð í sjónvarpsþáttunum Miami Vice og vegna þess að þetta var síðasti ofurbíllinn sem var framleiddur áður en Enzo Ferrari, forstjóri Ferrari, lést.
Aðeins 501 eintak var smíðað og kostaði hver bifreið sem svarar til um 110 milljóna íslenskra króna á þeim tíma. Verðmæti bifreiðarinnar núna er sem svarar til um 40 milljóna íslenskra króna.