Gríðarleg öryggisgæsla var í og við dómsalinn, þyrla sveimaði yfir sem og drónar og á jörðu niðri stóðu þungvopnaðir, grímuklæddir lögreglumenn vörð um dómhúsið í Amsterdam. Ástæðan var að á sakamannabekknum sat fjöldi meðlima kókaínmafíu sem var fyrir dómi lýst sem „vel smurðri drápsmaskínu“.
Jótlandspósturinn segir að meðlimirnir hafi verið ákærðir fyrir öldu blóðugra morða og ofbeldi gegn hverjum þeim sem þá grunaði að ynnu á móti þeim. Ábyrgðin á þessu blóðbaði var sögð hvíla á herðum Ridouan Taghi, sem er sagður „óumdeilanlegur leiðtogi“, sem lögreglan segir vera „einn hættulegasta mann heims“.
Hann var fundinn sekur um fimm morð og var dæmdur í ævilangt fangelsi.
Dómari sagði í gegnum fjarfundabúnað að Taghi „hafi ákveðið hverjir skyldu myrtir og að hann hafi ekki þyrmt neinum“.
16 til viðbótar voru sakfelldir í málinu sem var til meðferðar í mörg ár. Það snerist aðallega um fjölda morða og morðtilræða á árunum 2015 til 2017.
Glæpasamtök Taghi hafa fengið nafnið Mokromafían í Hollandi en nafnið vísar til að margir meðlimir mafíunnar eiga rætur að rekja til Marokkó. En einnig eru meðlimir frá Póllandi, Síle og Karíbahafinu í mafíunni.
Dómarinn sagði hana vera „morðsamtök“. Þess utan er talið að hún sé stærsti dreifingaraðili kókaíns í Hollandi. Hún er einnig grunuð um að selja verksmiðjuframleidd fíkniefni og að vera virk í Belgíu og á Spáni auk þess að vera í tengslum við eiturlyfjahringi frá Suður-Ameríku.
Taghi var handtekinn í Dubai 2019 en þar virðist hann hafa búið um hríð í ósköp venjulegu einbýlishúsahverfi. Hann var framseldur til Hollands þar sem honum var strax komið fyrir í hámarksöryggisfangelsi undir ströngu eftirliti.