Kanchaa Sherpa, sem var í leiðangurshópi þeirra Sir Edmund Hillary og Tenzing Norgay sem fyrstir klifu Everest-fjall árið 1953, segist vera mjög óánægður með það hvernig gengið er um fjallið. Kallar hann eftir því að fjallinu verði sýnd meiri virðing en gert er.
Kanchaa var í leiðangurshópi Sir Edmund Hillary og Tenzing Norgay sem voru fyrstir til að komast á topp þessa hæsta fjalls heims þann 29. maí 1953. Er Kanchaa sá eini úr þessum hópi sem enn er á lífi en hann er orðinn 91 árs.
Gríðarleg ásókn er meðal fjallgöngumanna að komast á topp Everest. Til marks um það komust 667 göngumenn á toppinn í fyrra en með þeim í för var mikill fjöldi aðstoðarfólks og alls konar búnaður.
Kanchaa var í viðtali við AP-fréttaveituna um helgina þar sem hann lýsti skoðun sinni á málinu.
„Það væri betra að fækka þeim sem reyna að komast á toppinn,“ sagði hann. Tekið er fram í fréttinni að yfirvöld í Nepal hafi ekki í hyggju að fækka útgefnum leyfum.
Reglum samkvæmt þurfa göngumenn að ganga vel um svæðið og hirða allt rusl eftir sig, ella eiga á hættu að vera sviptir leyfi til að vera á svæðinu. Eftirliti er hins vegar ábótavant og skilja göngumenn eftir mikið rusl á fjallinu.
„Fjallið er mjög skítugt. Fólk hendir allskonar drasli frá sér en hver á að tína þetta upp?“
Sjerpar kalla Everest-fjall Qomolangma sem þýðir guðmóðir alheimsins og nýtur það mikillar virðingar meðal þeirra.
Kanchaa var sem fyrr segir í leiðangrinum sem komst fyrstur á topp fjallsins. Hann var einn þriggja sjerpa sem komust í efstu búðir áður en Edmund Hillary og Tenzing Norgay gerðu lokaatlöguna að toppnum. Komst hann ekki alla leið þar sem hann var ekki með leyfi.