fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Var nálægt því að komast upp með hið fullkomna morð – Þá kom pípulagningamaðurinn til sögunnar

Pressan
Laugardaginn 2. mars 2024 22:00

Susan Doll.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn langi armur laganna gefst seint upp og þá sérstaklega þegar um morðmál er að ræða. Það veit Doug Thames, sem nú er 41 árs, mæta vel.

Árið 1989, þegar hann var á unglingsaldri framdi hann hrottalegan glæp og árum saman var ekkert sem benti til að upp um hann kæmist. Sjálfur taldi hann sig hafa framið hið fullkomna morð og að hann myndi aldrei nást.

En stundum verða hreinar tilviljanir og heppni til þess að upp kemst um glæpi og það var einmitt það sem gerðist í tilfelli Thames.

Þegar hann taldi sig vera hólpinn og myndi aldrei þurfa að svara til saka fyrir ódæðisverkið sem hann framdi náði hinn langi armur laganna honum og mun hann því eyða því sem hann á eftir ólifað í einsmannsklefa í ríkisfangelsi í Colorado í Bandaríkjunum. Hann á ekki möguleika á reynslulausn og yfirgefur fangelsið því ekki fyrr en hann verður lagður í kistu eftir andlátið.

Morðið

Á heitu síðsumarkvöldi í ágúst 1989 var Marsha Reed, rannsóknarlögreglukona í Fort Collins í Colorado, send að Rambouilett Drive 2219. Nágranni náði ekki sambandi við íbúann, Susan Doll, sem svaraði ekki í síma né þegar dyrabjöllunni var hringt.

Nágranninn og Susan voru góðir vinir og hittust daglega en nú var eins og jörðin hefði gleypt Susan. Reed ákvað að fá lásasmið til að opna dyrnar. Þegar inn var komið blasti við af hverju nágranninn náði ekki sambandi við Susan. Hún var dáin.

Susan, sem var einhleyp og vann sem ritari í stálverksmiðju, lá á gólfinu við hliðina á rúminu og var afskorin símasnúra vafin um háls hennar. Hún var nakin. Allt benti til að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi.

En þegar sérfræðingar lögreglunnar komu á vettvang til að framkvæma vettvangsrannsókn áttuðu þeir sig fljótt á að ekki var um „hefðbundið“ kynferðisbrot að ræða.

Réttarmeinafræðingar staðfestu að Susan hafi látist innan við sólarhring áður en hún fannst og að henni hefði hvorki verið nauðgað né orðið fyrir öðrum formum kynferðisofbeldis. En hins vegar fannst sæði og þvag víða í húsinu.

Susan Doll.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ef morðinginn hefði hegðað sér eins og margir kynferðisbrotamenn og hugsað skýrt, þá hefði hann notað smokk til að skilja ekki eftir sig lífsýni í húsinu. Annað sem kom lögreglumönnum á óvart var að hann lét undirfatnað, blússu og pils Susan liggja í fallegum bunka við hliðina á rúminu.

Það var nánast eins og hann hefði reynt að taka til eftir sig. En það vantaði eina flík, nærbuxur Susan. Ítarleg rannsókn leiddi í ljós ekki einar einustu nærbuxur af Susan voru í húsinu, þær höfðu allar verið teknar.

Hrollvekjandi upplýsingar

Hárin reistu sig á Marsha Reed þegar hún kom aftur á lögreglustöðina og ræddi við vinnufélaga sinn. Hann sagði henni að 10 dögum áður hefði hann verið sendur heim til Susan vegna innbrots. Hún hafði komið heim á miðvikudagskvöldi og séð að búið var að brjóta útidyrnar upp. Hún óttaðist hið versta, að búið væri að róta í öllu og að allt væri á tjá og tundri. En henni til mikillar undrunar sá hún að það vantaði ekkert annað en allar nærbuxurnar hennar, um það bil 25 í heildina.

Þjófurinn hafði ekki snert neitt annað í húsinu, ekki einu sinni peningaseðla sem lágu í skál á kommóðunni sem nærbuxurnar voru geymdar í.

Á þessum tíma var DNA-tæknin ekki eins góð og hún er í dag en lögreglan fann eitt og annað nothæft í húsinu, til dæmis fjölda fingrafara.

Morðingi á BMX-hjóli

Lögreglan bar sæðið og þvagið, sem fannst í húsinu, saman við rúmlega 3.000 sýni í gagnabönkum sínum en fékk enga svörun.

Morðið á Susan Doll, sem átti sér enga óvini, þvert á móti, var ekki aðeins hörmulegt, það var einnig á margan hátt undarlegt og ólíkt flestum morðum.

Lögreglan lagði allt í sölurnar við rannsókn þess og fékk aðstoð frá Alríkislögreglunni FBI. En allar vísbendingar enduðu í blindgötu og „Nærbuxnamorðinginn“, eins og fjölmiðlar kölluðu hinn óþekkta morðingja, gekk laus árum saman.

Nágrannar Susan sögðu lögreglunni að ungur maður hefði hjólað um hverfið á BMX-hjóli daginn sem Susan tilkynnti um innbrotið og nærbuxnaþjófnaðinn. Mörg hundruð ungir eigendur BMX-hjóla voru yfirheyrðir en það skilaði engum árangri.

Nærbuxurnar

Sex árum eftir að Susan var myrt komst loks hreyfing á málið. Pípulagningamaður var sendur í hús um einn kílómetra frá húsi Susan við Rambouilett Drive til að laga lek vatnsrör. Hann fjarlægði innbyggðan ofn og gerði þá undarlega uppgötvun. Um 35 til 40 nærbuxum hafði verið troðið í holu bak við ofninn. Hverjar einustu nærbuxur höfðu verið brotnar nákvæmlega saman og það var eins og þær hefðu verið straujaðar. En það sem var allra undarlegasta var að þær voru allar drulluskítugar og ógeðslegar.

Pípulagningamanninum mundi eftir fjölmiðlaumfjölluninni um „Nærbuxnamorðingjann“ og tilkynnti lögreglunni um fundinn.

Nærbuxurnar voru sendar til rannsóknarstofu og þegar niðurstaða rannsóknarinnar lá fyrir hringdu allar viðvörunarbjöllur á lögreglustöðinni. Ástæðan var að DNA úr nærbuxunum var úr manninum sem skildi eftir sæði og þvag heima hjá Susan þegar hún var myrt.

Hluti af nærbuxum Susan Doll.

 

 

 

 

 

 

Lögreglan komst fljótt að því að þrír ungir menn hefðu búið í húsinu þegar Susan var myrt. Einn þeirra var líklega morðinginn. Þetta voru bræðurnir Doug og Keith Thames, sem voru 15 og 16 ára þegar Susan var myrt, og vinur þeirra, hinn 15 ára Paul Trujillo. Þremenningarnir áttu sér sameiginlegt áhugamál: BMX-hjól. Þeir fluttu úr húsinu fjórum mánuðum eftir morðið. Nú bjuggu þeir í íbúð í Grand Junction í vesturhluta Colorado.

Þann 2. ágúst 1995 óku Marsha Reed og Jim Broderick, rannsóknarlögreglumaður, til Grand Junction. Eftir sex ára rannsókn fannst þeim loksin sem heppnin væri á þeirra bandi. Niðurstöður DNA-rannsókna lágu fyrir og ljóst var að það var sami maðurinn sem hafði skilið sæði og þvag eftir og hafði stolið nærbuxum Susan.

Lífsýni voru tekin úr þremenningum og niðurstaðan lá fljótlega fyrir. Sá sem hafði skilið eftir sæði og þvag á nærbuxnum og morðvettvanginum var Doug Thames.

Doug Thames.

 

 

 

 

 

 

 

„Kalt og óupplýst morðmál var skyndilega orðið sjóðandi heitt,“ sagði Marsha Reed síðar.

Klukkan 14. 56 þann 3. ágúst 1995 var Doug handtekinn, grunaður um morðið á Susan.  Hann hefur ekki fundið vinda frelsis leika um sig síðan.

Hann sat í gæsluvarðhaldi þar til í byrjun maí 1996 en þá var hann fundinn sekur um morð af fyrstu gráðu og dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn eða náðun. Hann slapp við dauðarefsingu af því að hann var unglingur þegar hann framdi morðið.

Hann neitaði sök en sönnunargögnin voru svo sterkt að neitun hans kom ekki að neinu gagni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Pressan
Fyrir 2 dögum

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu