Klette var handtekin í Berlín en hún hafði verið eftirlýst í um 30 ár, meðal annars vegna gruns um vopnað rán og manndrápstilraun.
Sjá einnig: Lögreglan bindur vonir við að nýjar myndir komi henni á slóð RAF-hryðjuverkamanna
Handtakan kemur tveimur vikum eftir að þátturinn Aktenzeichen XY var sýndur í þýska sjónvarpinu en þar var biðlað til almennings að hafa augun opin vegna Klette og tveggja annarra úr Baader-Meinhof hópnum sáluga sem enn eru eftirlýstir. Eftir að þátturinn var sýndur bárust lögreglu um 250 ábendingar.
Klette tilheyrði svokallaðri þriðju kynslóð samtakanna sem voru stofnuð árið 1970 af Andreas Baader og Ulrike Meinhof sem töldust til fyrstu kynslóðar samtakanna. Um var að ræða skæruliðasamtök sem frömdu morð, mannrán, sprengjuárásir og skemmdarverk. Samtökin voru leyst upp árið 1998.
Klette á yfir höfði sér fangelsisdóm vegna vopnaðra rána og manndrápstilraunar á árunum 1999 til 2016. Er talið að Klette og tveir aðrir, Ernst-Volker Staub og Burkhard Garwed, hafi haft milljónir evra upp úr ránum á þessum tíma. Þau létu að sér kveða árið 2016 þegar peningaflutningabíll var rændur.