Eftir margra mánaða vinnu tókst að opna hylkið þann 10. janúar. Það innihélt um 250 grömm af jarðvegi frá Bennu. Það var OSIRIS-REX geimfarið sem sótti sýnið. Talið er að jarðvegssýnið innihaldi lífsins fræ, það er efni sem komu hugsanlega að myndun lífs. Þetta er fyrsta sýnið sem NASA hefur sótt á loftstein.
Áður en það tókst að opna hylkið hafði tekist að ná 70 grömmum af jarðvegi úr loki þess en tvær skrúfur komu í veg fyrir að hægt væri að ná restinni. Það var ekki fyrr en búið var að búa til ný verkfæri sem tókst að losa skrúfurnar.
Live Science hefur eftir Eileen Stansbery, hjá NASA, að unnið hafi verið sleitulaust að því að opna hylkið og að þessi vinna hafi að lokum skilað árangri.
Það var flókið og langt verkefni að sækja sýnið til Bennu. Geimfarið ferðaðist 6,4 milljarða kílómetra um geiminn á leið sinni fram og til baka. Hylki lenti síðan í eyðimörk í Utah í Bandaríkjunum.
Bennu er í flokki loftsteina sem geta hugsanlega lent í árekstri við jörðina. Líkurnar á því eru 1 á móti 2.700 og er það árið 2182 sem þær eru svo miklar. Enginn annar þekktur hlutur í geimnum er líklegri til að lenda í árekstri við jörðina okkar.