Blaðamaður Aftonbladet, Lisa Horn, gerði rannsókn á salernum þinghússins og notaði þar til gerðan klút sem breytir um lit þegar snefilefni af kókaíni komast í snertingu við hann.
Er skemmst frá því að segja að leyfar af kókaíni fundust á fjórum af átta salernum þinghússins, þar á meðal salernum sem þingmenn Frjálslynda flokksins, Svíþjóðardemókrata, Jafnaðarmannaflokksins og Vinstriflokksins hafa aðgang að.
Í umfjöllun Aftonbladet kemur fram að þetta þurfi ekki endilega að koma á óvart enda sé kókaín mjög útbreitt í sænsku samfélagi. Óvarlegt sé samt að halda því fram að margir þingmenn noti kókaín að staðaldri enda þinghúsið stór vinnustaður.
Niðurstöðurnar veki þó vissulega ákveðnar spurningar, enda gríðarlega ströng öryggisgæsla í þinghúsinu.
Málið hefur vakið talsverða athygli í Svíþjóð í morgun. Ulf Kristersson, forsætisráðherra landsins, sagði málið litið alvarlegum augum.
Ebba Busch, leiðtogi Kristilegra demókrata, segir að sænska þinghúsið sé vinnustaður og mikilvægt að eiturlyfja sé ekki neytt þar. Þingið setji lögin í landinu og það gangi ekki að þar innandyra sé fíkniefna neytt.
Mharrem Demirok, formaður Miðflokksins, tekur niðurstöðurnar alvarlega og segir að lögregla þurfi að ákveða hvort og þá hvernig eigi að bregðast við. „Fíkniefni eru augljóslega stórt vandamál. Við vitum að þau fjármagna glæpasamtök í landinu og eru hluti af vandamálinu sem hefur skapast vegna tíðra skotárása að undanförnu,“ segir hann.