Arkitektinn og meinti raðmorðinginn Rex Heuermann hefur verið ákærður fyrir enn eitt morðið. Um er að ræða fjórðu konuna sem hann er sakaður um að hafa banað og komið fyrir við Gilgo-ströndina í Long-Island. Verði hann fundinn sekur í öllum tilvikum er hér um að ræða fyrstu konuna sem hann banaði, Maureen Brainard-Barnes. Fjölskylda hennar hefur fagnað ákærunni en þau hafa lifað við nagandi óvissu síðan Maureen fannst látin fyrir rúmum 13 árum síðan.
Ákæran hefur lengi legið í loftinu en þegar Rex var ákærður fyrir hálfu ári síðan var samhliða tekið fram að hann væri sakborningur í rannsókninni á andláti Maureen. Það er þó ekki fyrr en nú sem formleg ákæra var gefin út. Rex hefur þegar tekið afstöðu til ákærunnar og segist saklaus, líkt og í hinum málunum. Lögmaður hans segir ekkert hafa breyst hjá meinta morðingjanum. Hann sé saklaus og hlakki til þess að sýna heiminum það í dómsal. Næst verður Rex leiddur fyrir dóm í febrúar en þar til dvelur hann í gæsluvarðhaldi.
Leynd var nýlega létt af dómskjölum í málinu þar sem ýmislegt áhugavert var leitt í ljós. Saksóknari heldur því fram að Rex hafi áttað sig á því að veggirnir væru að þrengjast að honum áður en hann var handtekinn síðasta sumar. Hann hafi í því skyni reynt að eyðileggja sönnunargögn meðal annars með því að afla hugbúnaðar sem átti að hreina gögn af raftækjum hans. Ætlunarverkið tókst þó ekki betur en svo að óhugnanleg Google-leitarsaga Rex sem og ofbeldisfullt klámefni, liggja fyrir í málinu.
Eins kom fram að lögregla hafi nokkru fyrir handtöku Rex veitt dóttur hans, Victoriu, eftirför á almannafæri og beðið færis á að ná úr henni lífsýni. Þetta hafi svo tekist þegar Victoria henti frá sér tómri dós af orkudrykk en þessi dós gerði lögreglu kleift að greina lífsýni hennar meðal þeirra sýna sem fundust hjá fórnarlömbum Gilgo-morðanna, þar með talið á Maureen. Það hefur komið fram í fyrri fréttaflutningi að lífsýni úr eiginkonu Rex, Ásu Guðbjörgu Ellerup, hafi lögregla aflað úr pitsukassa sem fannst í ruslinu fyrir utan heimili þeirra.
Héraðsaksóknarinn Raymond A. Tierney fer fyrir saksókn í málinu, enda ekki á hverjum degi sem meintur raðmorðingi svarar til saka. Hann sagði á blaðamannafundi eftir að nýja ákæran var gefin út að Maureen eigi skilið réttlæti. Hún eigi skilið meira en að vera bara fórnarlamb og fjölskylda hennar eigi skilið að fá svör.
„Hún var frábær systir og dóttir. Hennar er sárt saknað af þeim sem elskuðu hana. Það hefur verið mér heiður og forréttindi að vinna að þessu máli og ná fram einhverjum málalyktum fyrir fjölskylduna.“
Maureen var aðeins 25 ára gömul þegar henni var banað. Tierney tók fram að Maureen hafi verið meira en kynlífsverkakona. Hún var klár og elskaði fátt meira en að skrifa. Henni þótti vænt um fólkið sitt og þá sérstaklega um sjö ára dóttur sína, Nicolette.
„Að missa hana breytti stefnu lífs míns algjörlega. Það komu endalausir dagar þar sem ég þurfti á henni að halda, en hún var ekki hér. Ég man að hún las fyrir mig á hverju kvöldi en í dag man ég ekki hvernig rödd hennar hljómaði. Ég vildi að hún væri hér í dag, en hún var tekin frá okkur,“ sagði Nicolette á blaðamannafundi, en hún er orðin lögráða ungmenni í dag. Hún segir að með útgáfu ákærunnar sé fjölskyldan skrefi nærri því að geta lokað þessum kafla og ná fram réttlæti fyrir Maureen sem var tekin frá þeim sem elskuðu hana, alltof snemma.
Systir Maureen var mikið niðri fyrir á blaðamannafundi og sagði ósanngjarnt að heimurinn þekkti systur hennar aðeins sem kynlífsverkakonu og fórnarlamb hrottalegs glæps.
„Hún var fyrst og fremst ástrík móðir, umhyggjusöm systir og gjafmildur vinum. Þegar við misstum Maureen heltist yfir okkur ólýsanlegur sársauki og kvíði. Líf mitt molnaði þegar við fengum það staðfest að Maureen væri látin.“
Nú hefur eins verið frekara ljósi varpað á þær skuggalegur leitir sem Rex gerði á Google þegar hann óttaðist að lögreglan væri á eftir honum, sem og þess sem hann leitaði að til að svala þörfum sínum.
Viðkvæmir eru varaðir við lýsingunni að neðan.
Til dæmis hafði Rex leitað upplýsinga um réttarmeinafræði og hvernig greiningar á erfðaefni ganga fyrir sig. Eins hafði hann kynnt sér hvernig gögn úr farsímum geta komið upp um glæpamenn og annað sem saklausir eru tæpast að leita að í frítíma sínum. Eins hafði hann leitað af ógeðfelldu klámefni sem helst hafi átt að innihalda ofbeldi, pyntingar og niðurlægingu á vændiskonur á unglingsaldri. Eins leitaði hann að frásögnum og upptökum frá konum sem lýstu kynferðisofbeldi sem þær höfðu verið beittar.
Lögmaður Ásu Guðbjargar segir að hún og börnin séu slegin sem fyrri daginn yfir nýju ásökuninni. Ef Rex reynist sekur þá sé ljóst að hann hafi lifað tvöföldu lífi sem þau hafi ekkert vitað um.
Til upprifjunar er vert að nefna að líkamsleifar ellefu einstaklinga fundust við Gilgo-ströndina á nokkra mánaða tímabili árin 2010-2011. Flest hinna látnu, alls átta, voru konur sem eiga það sameiginlegt að hafa starfað við vændi og verið ungar að árum. Þeim til viðbótar fannst látið stúlkubarn sem talið er hafi verið um tveggja ára gamalt, móðir stúlkunnar sem ekki hefur tekist að bera kennsl á og svo karlmaður af asískum uppruna. Margar kenningar hafa gengið um þau látnu sem enn eru nafnlaus. Mögulega hafi hreint ekki verið um karlmann að ræða heldur trans konu sem hafi leiðst út í vændi og að móðir stúlkubarnsins hafi sömuleiðis verið í þessum bransa en því miður tekið barnið með sér í vinnuna á röngum degi.
Það sem greinir konurnar fjórar sem Rex er sakaður um að hafa banað frá hinum Gilgo-morðunum eru líkindi milli andláta þeirra. Banamein þeirra er hið sama og hafði þeim verið komið fyrir með áþekkum hætti. Líkindalega séð væri nánast útilokað að morðin væru ótengd. Hin morðin hafa þó ekki enn sem komið er verið tengd við Rex en þar hafði fórnarlömbum verið banað með gerólíkum hætti og líkamsleifar þeirra fundust aðeins að hluta við Gilgo-ströndina en svo hlutar á öðrum stað. Sú kenning er þó vinsæl meðal aðdáenda sannra sakamála að þarna hafi vissulega sami morðingi verið á ferðinni. Sá hafi eitt sinn stundað að hluta fórnarlömb sín niður og dreifa þeim á ólíka staði til að villa um fyrir lögreglu, en síðar breytt um aðferðafræði. Mögulega sökum þess að það er tímafrekt að hluta fólk niður og keyra með leifarnar hingað og þangað, auk þess sem það er ekki beint snyrtilegur verknaður. Þetta rými við þá aðferð sem við tók – að tjóðra fórnarlömbin og kyrkja þær.