Jonathan brenndist á 90% líkamans og lést 12 dögum eftir slysið. Hann var farþegi í Airbus EC130 B4 þyrlu sem hrapaði skömmu fyrir sólsetur þann 10. febrúar 2018.
Auk hans létust eiginkona hans, hin 29 ára gamla Ellie Udall, bræðurnir Stuart og Jason Hill sem voru 30 og 32 ára, og 27 ára unnusta Stuart, Becky Dobson.
Jonathan og Elli voru nýgift þegar slysið átti sér stað og var vinahópurinn staddur í Las Vegas til að fagna giftingunni sem og afmæli Hill bræðranna.
Sky News segir að foreldrar Jonathan hafi í málshöfðun sinni haldið því fram að hann hefði lifað slysið af ekki hefði orðið sprenging eftir að þyrlan brotlenti. Þá sprakk eldsneytistankurinn.
Sátt var gerð í málinu fyrir helgi og samkvæmt henni fá foreldrarnir sem svarar til um 13,5 milljarða íslenskra króna frá þyrlufyrirtækinu Papillon Airways og framleiðandanum, Airbus Helicopters SAS.
Lögmaður foreldranna sagði að þau hafi í hyggju að nota hluta af peningunum til að bæta öryggi í þyrluflugi og hvetja þyrluframleiðendur til að nota betri tækni svo fleiri foreldrar þurfi ekki að ganga í gegnum það sem þau hafa gengið í gegnum.
Í skýrslu bandarísku flugslysanefndarinnar um slysið kemur fram að líklega hafi þyrlan hrapað þegar flugmaðurinn missti stjórn á henni þegar sterkur meðvindur lenti á henni og hún byrjaði að snúast. Flugmaðurinn, Scott Booth, fótbrotnaði í slysinu og sjötti farþeginn, Jennifer Barham, slasaðist alvarlega en lifði einnig af. Þau brenndust bæði alvarlega. Síðar þurftu læknar að taka báða fæturna af Booth.