Sky News skýrir frá þessu og segir að yfirvöld hafi komist á snoðir um veru Rossi í Bretlandi þegar hann veiktist af COVID-19 og var lagður inn á sjúkrahús í Glasgow.
Hann var þó ekki á þeim buxunum að viðurkenna að hann væri Rossi og sagði að mistök hefðu verið gerð því hann héti Arthur King og væri munaðarleysingi frá Írlandi og hefði aldrei á ævinni komið til Bandaríkjanna.
Rannsókn leiddi í ljós að hann hafði breytt nafni sínu fjórum sinnum á þremur árum og sagt margar sögur til að leynast fyrir yfirvöldum.
Hann veiktist af COVID-19 í desember 2021 og var lagður inn á sjúkrahús í Glasgow. Ári síðar úrskurðaði dómstóll í Edinborg að húðflúr á honum og fingraför svöruðu til þess að hann væri Rossi en hann var eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol.
Í kjölfarið hófst málarekstur sem dróst mjög á langinn og var það því ekki fyrr en í síðustu viku sem hann var framseldur til Bandaríkjanna.