Sky News skýrir frá þessu og segir að auk þess að árið var mjög hlýtt þá hafi hvert öfgaveðrið á fætur öðru herjað á heimsbyggðina. Þetta voru allt frá þurrkum og miklum gróðureldum til úrhellis og flóða.
Árið var varla gengið í garð þegar mikil úrkoma skall á Kaliforníu og olli flóðum og skriðum. 21 lést í hamförunum.
Spánverjar upplifðu þurrasta marsmánuðinn í 20 ár. Hann var svo þurr að vatnsból létu mjög á sjá og mældist vatnsmagnið í þeim hið minnsta síðan 1990. Hitinn hélt áfram að hrella Spánverja í apríl og mældist mesti hitinn í mánuðinum 38,8 gráður.
Margir muna eflaust eftir miklum skógareldum sem herjuðu á marga vinsæla sumarleyfisstaði í Evrópu síðasta sumar og fór hitinn oft yfir 40 gráður í álfunni.
Haustið fór einnig illa með mörg svæði. Miklir þurrkar herjuðu á Amazon í Suður-Ameríku og öflugar haustlægðir skullu á Bretlandseyjum og nokkrum löndum á meginlandinu.
Veðrið hafði neikvæð áhrif á heimsviðskiptin og getur haft miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir þau í framtíðinni.