Cindy, sem er búsett í Kentucky í Bandaríkjunum, leitaði til læknis eftir sársaukafullt nýrnasteinakast í desember. Læknar reyndu að meðhöndla hana eftir bestu getu en ekki leið á löngu þar til illviðráðanleg sýking fór að gera vart við sig. Sýkingin leiddi síðan til blóðeitrunar.
Eftir að hafa dvalið á sjúkrahúsi um skamma hríð sáu læknar þann kost vænstan að svæfa hana. Þegar Cindy vaknaði nokkrum dögum síðar var búið að fjarlægja fótleggi hennar fyrir neðan hné vegna blóðeitrunarinnar.
Martröðinni var ekki lokið því læknar tjáðu henni að þeir þyrftu einnig að fjarlægja handleggi hennar fyrir neðan olnboga vegna sýkingarinnar.
Söfnun á vefnum GoFundMe hefur verið hrundið af stað fyrir Cindy og hefur mál hennar vakið talsverða athygli í bandarísku pressunni. Í samtali við WLEX kveðst hún vilja líta á björtu hliðarnar þó að síðustu dagar ársins 2023 hafi verið henni afar erfiðir.
„Ég er bara hamingjusöm að vera á lífi. Ég fæ að sjá börnin mín, ég fæ að sjá fjölskylduna mína. Ég fæ að njóta tímans með eiginmanni mínum,“ segir hún.
Kveðst hún vonast til þess að saga hennar verði til þess að aðrir „hægi aðeins á sér“ í hinu hversdagslega amstri og njóti heilsunnar og tímans með sínum nánustu.
Mullins, sem starfar sem hjúkrunarfræðingur, hefur verið með eiginmanni sínum síðan hún var 17 ára og saman eiga þau tvo syni, 12 og 7 ára.