Melissa var 32 ára en hún tilkynnti árið 2017 að hún væri hætt að keppa í hjólreiðum eftir farsælan feril þar sem hún varð meðal annars heimsmeistari.
Ástralskir fjölmiðlar greina frá því að eiginmaður Hoskins, hjólreiðamaðurinn Rohan Dennis, hafi verið handtekinn eftir dauða Melissu um helgina. Virðist sem hann hafi ekið bifreið sinni yfir Melissu fyrir utan heimili þeirra á laugardag.
Óvíst er hvernig slysið bar nákvæmlega að en í frétt News.com.au kemur fram að Melissa hafi að líkindum reynt að opna dyrnar farþegamegin meðan bíllinn var á ferð. Er talið að hún hafi orðið undir bifreiðinni og jafnvel dregist með henni einhverja vegalengd.
Melissa var flutt á slysadeild alvarlega slösuð en lést nokkrum klukkustundum síðar.
Dennis var sleppt úr haldi gegn tryggingu eftir slysið en saman áttu þau tvö börn. Þau voru nýbúin að festa kaup á glæsilegu húsi í Medindie og fluttu inn í það viku fyrir jól.