Mariann var 81 árs þegar hún lést á dvalarheimili aldraðra á Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Jótlandspósturinn ræddi við þau hjón í haust um stöðu þeirra og ósk Ebbe um að Mariann fengi aðstoð við að deyja.
Jonas sagði í samtali við Ekstra Bladet að móðir hans hafi verið með Parkinsonssjúkdóminn og elliglöp. Hún var mjög heft líkamlega, notaðist við hjólastól og gat ekki einu sinni klórað sér á nefinu sagði Jonas.
Hann sagði að sjúkdómseinkennin hafi farið að gera vart við sig þegar hún var á miðjum sextugsaldri. „Fyrst var þetta smá vandi með annan fótlegginn. Eitthvað sem læknirinn segir að sé ekkert. En þetta var eitthvað. Dag einn var henni vísað til taugalæknis og hún var greind með Parkinsons sem versnaði síðan stig af stigi næstu þrjá áratugi,“ sagði hann og bætti við að síðustu árin hafi lífsgæði hennar ekki verið góð. Á góðum degi hafi hún getað sagt setningu með merkingu en annars hafi hún ruglað.
Eftir að Ebbe hafði gefið Mariann of stóran lyfjaskammt að kvöldi annars dags jóla á dvalarheimili á Frederiksberg fór hann heim , skrifaði kveðjubréf og kveðjutölvupósta og tók sama skammt.
Hann hafði ekki reiknað með að neinn myndi lesa skilaboðin fyrr en næsta morgun en dóttir hans las tölvupóstinn skömmu eftir að hann sendi hann og fór strax til móður sinnar á dvalarheimilinu. Starfsfólkið varð þess þá áskynja að eitthvað óeðlilegt væri í gangi og fann síðan kveðjubréf á náttborði hennar.
Í kjölfarið var sjúkrabíll sendur heim til Ebbe og var hann á lífi en meðvitundarlaus þegar að var komið. Hann var strax fluttur á sjúkrahús og tókst læknum að bjarga lífi hans.
Ebbe var úrskurðaður í gæsluvarðhald á laugardaginn vegna rannsóknar málsins.
Málið hefur vakið mikla athygli og umræðu í Danmörku og kveikt nýjar glóðir í umræðunni um hvort heimila eigi líknardráp.