Það er alltaf gaman þegar brandari hittir vel í mark, en líklega eru þó fáir svo heppnir að brandari þeirra leiði til kraftaverks. Þetta gerðist þó í Michigan í Bandaríkjunum þar sem hin 41 árs Jennifer Flewellen hafði legið hreyfingarlaus á sjúkrahúsi í fimm ár. Hún hafði aldrei náð meðvitund eftir alvarlegt bílslys og óttuðust læknar að Jennifer myndi aldrei vakna úr dáinu.
Það var í september árið 2017 sem Jennifer, þá 35 ára þriggja barna móðir, var á leið til vinnu eftir að hafa keyrt syni sína í skólann. Enginn er viss hvernig það svo atvikaðist, en Jennifer endaði með að keyra á mikilli ferð á staur. Slysið var alvarlegt og tókst læknum ekki að koma henni til meðvitundar í kjölfarið. Engu að síður var Jennifer á lífi og hélt fjölskylda hennar því í vonina.
Það var svo í ágúst á síðasta ári sem móðir hennar sat við sjúkrarúm hennar og talaði við dóttur sína án þess að búast við nokkru svari. Þetta hafði móðir hennar gert upp á nánast hvern einasta dag í von um að dag einn myndi Jennifer svara henni. Þó svo hún hafi haldið í vonina hafði hún dofnað með árunum svo hún bjóst ekki við neinu þennan dag þegar hún sagði dóttur sinni brandara. En þá skyndilega heyrðist hlátur.
„Svo vaknaði hún, og ég var dauðskelkuð fyrst því hún var hlæjandi en það hafði hún ekki gert áður. Allir draumarnir rættust þennan dag. Þetta var dagurinn, sagði ég, þar sem hurðin sem hélt henni frá okkur opnaðist og við fengum hana til baka.“
Ekki var Jennifer þó heimt úr helju því nú átti hún framundan langa og stranga endurhæfingu. Jennifer fékk slæmt höfuðhögg í árekstrinum og varð fyrir varanlegum heilaskaða, en telja læknar að heili hennar hafi hreinlega slökkt á meðvitund hennar til að vinna að úrbótum. Eins hafði líkami hennar rýrnað mikið í fimm ára hreyfingarleysinu. Jennifer er þó baráttukona sem gefst ekki upp. Með viljan að vopni hefur hún tekið endurhæfinguna með trompi og barist við að endurheimta hreyfigetu og tal. Úti var staðið fyrir söfnun til að Jennifer kæmist heim, en til þess þurfti fjölskyldan sérútbúna bifreið og að aðlaga heimili sitt að breyttri færni Jennifer sem notast nú við hjólastól.
„Hún vaknaði, en samt ekki alveg. Hún gat ekki talað, en hún gat kinkað kolli. Hún svaf mikið þarna fyrst en með tímanum varð hún sterkari og með betri meðvitund,“ segir móðir hennar í samtali við People.
Læknir Jennifer segir að tilvik sem hennar séu afar sjaldgæf. „Ekki bara það eitt að vakna úr dái, heldur að ná framförum. Kannski 1-2 prósent sjúklinga vakna og ná þetta miklum framförum.“
Jennifer mun aldrei ná fyrri heilsu og er nú með fötlun sem mun fylgja henni út lífið, þó svo að hún sé enn að taka framförum. Hún getur tjáð sig með stikkorðum, hreyft höfuðið og setið með stuðning. Það reyndist henni erfitt að horfast í augu við að hafa misst af fimm árum í lífi barna sinna. Hún hafði misst af afmælum, jólum, útskriftum og stórum skrefum sem synir hennar tóku í lífinu, enda voru þeir elstu táningar þegar hún lenti í slysinu, en sá yngsti er 17 ára í dag.
„Við reynum að tala ekki um þann tíma sem hún missti af, því það kemur henni í uppnám,“ segir yngsti sonurinn í viðtalinu. „En amma segir alltaf við hana – Þú getur ekki setið bara og verið á bömmer því það er engu að fara að skila.“
Jennifer þarf í dag aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs en fjölskylda hennar telur hana eiga mikið inni í bataferlinu. Læknar taka undir með því og segja að Jennifer hafi nú þegar farið fram úr björtustu vonum og því ástæðulaust að ætla að hún haldi því ekki áfram. Nú stefnir fjölskyldan á stífa endurhæfingu til að Jennifer megi öðlast smá sjálfstæði. Standa vonir til þess að dag einn geti Jennifer gengið nokkur skref óstudd og náð betri tökum á tali. Jennifer og móðir hennar séu ákveðnar og ætli sér ná settum markmiðum.
Þar með varð brandari til þess að þrír ungir menn fengu móður sína aftur, en því miður fylgir ekki sögunni hver brandarinn var.