Anna Peterson, er tannlæknir og virk á TikTok. Þar birti hún nýlega myndband þar sem hún segir að mjög algengt sé að fólk noti munnskol þegar það er búið að tannbursta. En samkvæmt því sem hún segir þá á ekki að gera það.
Daily Star segir að eftir því sem Anna segi í myndbandinu þá sé mikilvægt að sleppa því að nota munnskol að tannburstun lokinni því þessu fylgi „hætta á að holur myndist í tönnunum“. „Notkun munnskols eftir tannburstun mun valda því að holur myndast í tönnunum svo þú skalt hætta þessu,“ segir hún.
Hún segir síðan að mikið magn flúors sé í tannkremi en það skolist í burtu ef þú notar munnskol sem inniheldur frekar lítið magn af flúor.
„Það inniheldur miklu minna og það er ekki nóg til að vernda tennurnar gegn þeim sykri sem þú borðar og drekkur,“ segir hún.
Hún tekur síðan fram að hún sé alls ekki á móti munnskoli og ráðleggi sjúklingum sínum að nota það en ekki eftir tannburstun. Þess í stað ráðleggur hún fólki að nota það þegar það er búið að borða. Einnig sé mikilvægt að borða og drekka ekki í að minnsta kosti hálfa klukkustund eftir að munnskol er notað.