Mál Nataliu Grace vakti töluverða athygli á árinu eftir að heimildarmyndin The Curious Case of Natalia Grace kom út, enda þykir málið nokkuð sérstakt.
Natalia kemur frá Úkraínu en var ættleidd af bandarískum hjónum árið 2010. Bernett hjónunum var sagt að þau væru að fá til sín stúlku á sjöunda ári, en eftir að Natalia var komin í þeirra umsjá runnu á hjónin tvær grímur.
Fór það svo að Bernett hjónin létu breyta skráðum aldri stúlkunnar í opinberum gögnum, komu henni einni fyrir í leiguíbúð, og fluttu svo án hennar til Kanada þremur árum eftir ættleiðinguna. Þetta gerðu þau í þeirri trú að Natalia væri í raun um 22 ára gömul en sökum sjaldgæfs afbrigðis af dvergvexti liti hún út fyrir að vera barn.
Þessari trú sinni deildu þau í áðurnefndri heimildarmynd þar sem þau sögðust hafa rökstuddan grun um að Natalia væri mikið eldri en þeim var talin trú um. Sögðust hjónin hafa sannanir fyrir því. Bernett hjónin eru að reyna að hreinsa nafn sitt, en eftir að Natalia fannst alein og yfirgefin í áðurnefndri íbúð, voru hjónin ákærð fyrir vanrækslu. Ákæran var þó felld niður áður en málið fór í dóm, en engu að síður hafa hjónin mætt fordæmingu í samfélaginu.
Bernett hjónin halda því ekki bara fram að Natalia hafi verið fullorðin þegar þau ættleiddu hana, heldur segja þau hana einnig siðblinda og saka hana um ofbeldi. Nágrannar sem bjuggu í nágrenni Bernett hjónanna á meðan Natalia bjó með þeim segja að stúlkan hafi verið algjör pest.
„Engum líkaði við hana, engum. Fólk vorkenndi henni, en tók henni með fyrirvara og kærði sig ekki um að hafa hana nærri. Hún sóttist í að hanga með mikið eldri strákum og ræddi við þá með kynferðislegum hætti.“
Annar nágranni sagði: „Hún vildi vita hvenær sonur okkar kæmi heim. Ekki hvenær dóttir okkar kæmi, heldur sonur okkar. Þá fór okkur að líða óþægilega enda var þetta á mörkum hins siðferðislega.“
Litla stúlkan hafi helst minnst á persónu úr hryllingsmynd, raðmorðingja eða álíka. Bernett hjónin segja að þar sem Natalia með dvergvöxt hafi hún náð að leyna aldrinum. Það hafi þó komið upp um hana að hún hafði fullorðinstennur, hafði á klæðum og var með skaphár. Stúlkan hafi verið martröð í sambúð og eitt sinn staðið yfir hjónunum vopnuð hníf. Þau hafi því neyðst til að forða sér.
Nú hefur Natalia stigið fram með sína hlið í framhaldi heimildarmyndarinnar. Natalia var ættleidd af öðru pari eftir að Bernett hjónin yfirgáfu hana og hefur búið með þeim síðustu 10 árin. Í heimildarmyndinni vísar Natalia frásögn Bernett hjónanna á bug. Hjónin hafi beitt hana ofbeldi, þvingunum og eyðilagt líf hennar. Það eina sem Natalia væri sek um sé að hafa treyst þeim, en hún var aðeins barn. Kristine Bernett hafi átt að vera móðir hennar eftir ættleiðinguna svo þegar Kristine krafðist þess að Natalia segði yfirvöldum að hún væri 22 ára, þá hlýddi hún.
Rætt er við tannlækni í heimildarmyndinni, en sá hafði myndað tennur hennar þegar hún bjó með Bernett hjónunum. Natalia man eftir því að hafa misst barnatönn á þessum tíma, eins og er algengt hjá börnum á aldrinum 6-12 ára. Tannlæknirinn gróf upp myndina og sagði hana óumdeilda sönnun þess að Natalia hafi aðeins verið barn. Þar megi skýrt sjá fullorðinstennur sem eiga eftir að koma upp, undir barnatönnum. Slíkt hefði aldrei sést á mynd af konu á þrítugsaldri.
„Það er ekki hægt að falsa það hvernig tennurnar koma upp,“ sagði tannlæknirinn og bætti við að Natalia hafi verið um 8-9 ára þegar myndin var tekin árið 2011. Natalia lét einnig rannsaka blóð sitt og aldursgreina. Þar kom í ljós að Natalia er í dag um 22 ára. Það þýðir að þó Natalia hafi ekki verið sex ára árið 2010, þá hafi hún ekki verið nálægt því að vera fullorðinn einstaklingur, líkt og Bernett hjónin handa fram.
Natalia segist fegin að þetta sé komið loks á hreint, en furðar sig á því hvers vegna Bernett hjónin hafi ákveðið að skrá hana 22 ára árið 2011.
Heimildarmyndin sú fyrri sem og framhaldið eru og verða ævintýralegar. Þar er Natalia meðal annars sökuð um að hafa létt af sér og haft hægðir yfir bróður sinn, kastað leikföngum út á götu í von um að bræður hennar yrðu fyrir bíl, stúlkan hafi kastað sér út úr bíl og lagt sig fram við að valda fjölskyldunni hugarangri og kvölum. Þar má einnig sjá Nataliu hitta fyrrum föður sinn í fyrsta sinn síðan hann yfirgaf hana.
Natalia hins vegar sakar fyrrum foreldra sína um að hafa stolið sögunni sem sögð er í kvikmyndinni The Orphan til að reyna að réttlæta það að hafa yfirgefið hana, þegar þau í rauninni bara treystu sér ekki til að sjá um barn með sérþarfir.
„Þau munu ekki komast upp með þetta,“ segir Natalia og bætir við að Bernett hjónin hafi rænt hana æskunni, en það sé ömurlegt fyrir barn að upplifa ítrekað höfnun sem birtist í þeirri hörmulegu mynd að hafa ítrekað verið yfirgefin af foreldrum sínum.