Hún skýrir frá þessu í færslu á Reddit og segir að getnaðarlimur hafi aldrei farið inn í leggöng hennar en hún og unnustinn hafi látið vel að hvort öðru án þess að fara „alla leið“. Unnustanum er brugðið vegna þungunarinnar og telur að hún hafi haldið framhjá honum.
Konan segist hafa leitað til læknis eftir að hafa verið töluvert veik í nokkra daga. Hún hafi látið þvagsýni í té sem og blóðsýni og hafi niðurstaðan verið að hún sé barnshafandi. Hún segir að í fyrstu hafi hún talið að læknirinn væri að grínast og hafi hlegið að tilhugsuninni um að hún væri þunguð og um leið hrein mey. En síðan hafi alvara málsins hellst yfir hana.
„Ég hélt að hún væri að grínast, en nei, ég er í alvörunni ólétt. Ég þagnaði eiginlega og hún byrjaði að tala um hluti eins og sónar, vítamín og þess háttar en ég greip fram í fyrir henni og sagði að þetta væri útilokað því ég hefði aldrei stundað kynlíf og því hefði getnaður ekki getað átt sér stað. Hún útskýrði fyrir mér að sumar konur, mjög fáar, geti orðið óléttar án þess að getnaðarlimur fari inn í leggöngin,“ skrifaði hún meðal annars.
Hún segist síðan hafa ekið beint heim til unnustans til að segja honum tíðindin og hafi ekki dottið í hug að viðbrögð hans yrðu að hann teldi hana hafa haldið framhjá. Hún sagðist hafa stungið upp á að þau færu í DNA-rannsókn en hann hafi ekki trúað orði af því sem hún sagði og rekið hana heim og hafi síðan lokað á hana á samfélagsmiðlum og blokkerað símanúmerið hennar.