Landsbyggðarfólk, farandverkamenn frá Mið-Asíu og skuldugir borgarar eru eltir uppi af yfirvöldum svo hægt sé að senda þá til Úkraínu.
Dag einn hvarf sonur konu að nafni Gulnara í meðalstórri rússneskri borg á landsbyggðinni. En fljótlega var hringt í hana og henni sagt að ef hún vildi ekki að hann yrði sendur til Úkraínu yrði hún að greiða „lausnargjald“ upp á sem svarar til um 240.000 íslenskra króna.
Það var ekki mafína sem hafði rænt syninum og krafðist lausnargjalds. Það var lögreglan sem var að verki. Gulnara fékk nokkurra daga frest til að útvega peningana, að öðrum kosti yrði sonur hennar, sem er ekki með rússneskt vegabréf, sendur til Úkraínu en lögreglan hafði neytt hann til að skrifa undir samning um að gerast „sjálfboðaliði“ í Úkraínu.
„Þetta er ekkert annað en þrælasala. Ég náði naumlega að skrapa saman peningum,“ sagði Gulnara í samtali við Jótlandspóstinn. Milligöngumaður lét lögregluna fá peningana og skömmu síðar gat sonur hennar yfirgefið Rússland heill á húfi.
Þegar gripið var til herkvaðningar fyrir um ári síðar olli það töluverðum samfélagslegum óróa og því reyna yfirvöld nú frekar að verða sér úti um hermenn í þjóðfélagshópum sem hafa ekki sterka pólitíska stöðu. Fangar eru þar á meðal en þeim hefur verið lofað sakaruppgjöf ef þeir lifa sex mánuði á vígvellinum í Úkraínu. Samkvæmt tölum frá rússneska dómsmálaráðuneytinu þá voru um 420.000 fangar í fangelsum landsins áður en stríðið hófst, nú eru þeir um 266.000 að því að Washington Post segir.
En það virðist sem það sé orðið erfiðara að sannfæra fanga um að fara til Úkraínu og því er nú leitað á önnur mið en um leið er sneytt fram hjá stórborgum á borð við Moskvu og St. Pétursborg. Ástæðan er að yfirvöld vita vel að það getur valdið mikilli óánægju meðal áhrifamikillar millistéttarinnar sem býr í borgunum. Þess í stað er leitað að mönnum í fjarlægum og fátækum héruðum landsins og oft eru það minnihlutahópar sem verða fyrir barðinu á útsendurum yfirvalda.