Eigendur útfararstofu hafa verið ákærðir fyrir misnotkun á líki, þjófnað, peningaþvætti og skjalafals eftir að tæplega 115 rotnandi lík fundust þar í byrjun október, en líkin voru geymd við óviðeigandi aðstæður. Í fyrstu var talið að líkin væru nær 200 talsins.
Í fréttatilkynningu sem gefin var út í gær kemur fram að eigendurnir, hjónin Jon Hallford og Carie Hallford, hafi verið handtekin. Hjónin eiga útfararstofuna Return to Nature Funeral Home í smábænum Penrose í Colorado í Bandaríkjunum, en þar búa rétt um 3000 íbúar. Í byrjun október hófst rannsókn eftir að sýslumaður Fremont-sýslu brást við tilkynningum um vonda lykt frá útfararstofunni.
Samkvæmt Associated Press og Colorado Springs Gazette sögðust yfirvöld hafa fundið að minnsta kosti 189 rotnandi lík þann 4. október. Aðspurður viðurkenndi Jon að þarna væri „vandamál“, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu 5. október.
„Á meðan rannsókn á málinu heldur áfram, erum við einnig að einbeita okkur að fjölskyldum sem málið snertir,“ sagði Allen Cooper, lögreglustjóri í Fremont-sýslu, í fréttatilkynningu 17. október. „Við viljum gera allt sem við getum til að veita fjölskyldunum þann stuðning sem þær þurfa.“ Bætti hann við að búist væri við að tala líka myndi hækka enn frekar eftir því sem rannsóknin heldur áfram.
„Við erum að stunda umfangsmiklar samhæfingaraðgerðir þar sem við einbeitum okkur að því að bera kennsl á hin látnu og veita upplýsingar til að tryggja að fjölskyldurnar fái nákvæmar upplýsingar um leið og þær halda áfram að syrgja ástvini sína,“ sagði Randy Keller, dánarlæknir í Fremont-sýslu í tilkynningunni.
Útfararstofan hóf starfsemi árið 2017 og bauð upp á vistvæna og náttúrulega greftrunarþjónustu. Í nóvember greindi Associated Press frá því að allt benti til þess að fjölskyldur hefðu ekki fengið ösku ástvina sinna afhenta frá útfararstofunni. Þeir sem ræddu við AP fullyrtu að þeir hefðu ekki fengið auðkennismerki með líkamsleifum ástvina sinna og sumir töldu að askan hafi verið svipuð og þurr steypa og storknað þegar henni var blandað saman við vatn. Yfirvöld hafa ekki tjáð sig um þessar fullyrðingar.
Hjónin voru handtekin í öðru fylki og liggur því fyrst fyrir að fá þau framseld til Colorado, ekki er tekið fram hvort þau hafi lagt fram beiðni eða fengið lögfræðing til að tala máli sínu. Á vef FBI, bandarísku alríkisþjónustunnar, er komið form þar sem leitað er upplýsinga um viðskiptavini útfararstofunnar, svo finna megi upplýsingar um og bera kennsl á líkin. Jafnframt hefur verið opnuð hjálparlína hjá sveitarfélaginu fyrir fjölskyldur sem þurfa á stuðningi að halda vegna málsins.
„Ef þú eða einhver sem þú þekkir keypti þjónustu hjá útfararheimilinu Return to Nature frá september 2019 til september 2023, vinsamlegast fylltu út spurningalistann svo bera megi kennsl á hin látnu,“ segir á vef FBI.