Skipið, San José, sökk undan ströndum Kólumbíu í stríði gegn Bretum í spænska erfðastríðinu svokallaða. Talið er að gríðarleg verðmæti hafi verið um borð; gull, silfur og gimsteinar meðal annars, og gætu verðmætin numið allt frá 700 milljörðum til 3.000 milljarða króna á núverandi gengi.
Eðli málsins samkvæmt er mikið í húfi fyrir kólumbísk yfirvöld, en málið er ekki svo einfalt. Árið 1981 tilkynnti bandaríska fyrirtækið Glocca Morra að það hefði fundið flak skipsins á botni sjávar úti fyrir ströndum Kólumbíu. Fyrirtækið gaf kólumbískum yfirvöldum upp staðsetninguna gegn því að fá helming ágóðans sem var um borð.
Það var svo árið 2015 að þáverandi forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, sagði að kólumbíski sjóherinn hefði fundið flakið en á öðrum stað en Glocca Morra, sem nú heitir Sea Search Armada, gaf upp árið 1981. Af þeirri ástæðu gæti fyrirtækið ekki gert tilkall til þess að fá hluta af ágóðanum.
Sea Search Armada hefur stefnt kólumbískum yfirvöldum vegna málsins og er málið nú fyrir dómstólum.
Bloomberg greindi frá því á dögunum að Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, hafi fyrirskipað að hafinn verði undirbúningur að því að ná flakinu – eða verðmætunum sem um borð eru – upp úr sjónum.
Vill forsetinn að þetta gerist sem fyrst og segir menningarráðherra landsins, Juan David Correa, að þetta sé eitt af forgangsatriðum forsetans. Hann vilji klára málið áður en kjörtímabil hans rennur út árið 2026.
Spænsk yfirvöld hafa einnig gert tilkall til að eiga fjársjóðinn enda var skipið spænskt. Hafa þeir meðal annars vísað í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Kólumbíumenn hafa ekki gengist undir.