Illa lyktandi prump byrjar yfirleitt með kolvetni, sérstaklega þeim ómeltanlegum, sem komast í gegnum magann og efri hluta þarmanna án þess að vera tekin upp í líkamann.
Dr Ali Rezaie, meltingarfæralæknir, sagði í samtali við Live Science að bakteríur þrífist á þessum ómelta sykri sem sé eins og „oktanríkt eldsneyti“ fyrir þær. Þegar bakteríurnar gæða sér á þessum kolefnum mynda þær gas sem getur síðan orðið að prumpi.
En ekki allt gas, sem bakteríur mynda úr mat, verður að illa lyktandi prumpi. Einstaklingur framleiðir 500 til 1.500 millílítra af prumpi á dag, óháð mataræði. Rúmlega 99% af þessu gasi er lyktarlaust að sögn Rezaie.
Meðal þeirra gastegunda sem bakteríurnar framleiða er brennisteinsvetni sem lyktar eins og úldin egg. En hvað varðar að breyta mat í prump þá eru hlutföllin ekki einn á móti einum í maganum. Eric Goldstein, meltingarsérfræðingur, sagði að fólk geti borðað mikið af mat með brennisteini en prumpið muni ekki lykta eins og brennisteinsvetni. Ástæðan sé að aðrar bakteríur, sem vinna gegn þeim sem framleiða brennisteinsvetnið, vinni gegn lyktamenguninni.
Meðal matartegunda sem innihalda brennistein eru baunir, linsur, brokkolí og kál. Þessi matvæli innihalda kolefni sem geta breyst í illa lyktandi gas.
Goldstein og Rezaie sögðu að margir þættir geti haft áhrif á magn prumps og lyktina. Sumt fólk sé viðkvæmara en annað en það sé ekkert ákveðið fæði sem valdi meiri lyktamengun en annað.