Stærsti steinninn í innri hring Stonehenge, þekktur sem altar steinninn, gæti hafa komið mun lengra að en steinarnir sem eru nærri honum. Hugsanlega er hann frá norðurhluta Englands eða Skotlandi.
Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem vekja upp efasemdir um 100 ára gamla kenningu um uppruna steinanna.
Það var breski jarðfræðingurinn Herbert Henry Thomas sem birti rannsókn um Stonehenge 1923. Þar kom fram að steinarnir , sem eru í innri hringnum, væru frá Preseli Hills í Wales.
En samkvæmt því sem kemur fram í nýju rannsókninni þá var þetta mat Thomas rangt og altarissteinninn kom frá óþekktri námu í norðurhluta Englands.
Stonehenge var reist fyrir 4.000 til 5.000 árum síðan á Salisbury Plain í Wiltshire í suðurhluta Englands. Á næstu þúsundum ára var Stonehenge byggt, endurbyggt og bætt við það.