fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Martröð leigusala á Airbnb eftir að leigjendur frá helvíti ollu tugmilljóna tjóni

Pressan
Mánudaginn 23. október 2023 16:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir eru ófáir sem hafa ákveðið að nýta sér tilkomu skammtímaleigumiðlunarinnar Airbnb til að raka eld að sinni köku, hvort sem það er með því að fjárfesta í fasteign gagngert til að leigja hana út til ferðamanna, eða með því leigja eigið húsnæði út þegar það er ekki í notkun. Erika Gemzer frá San Francisco ákvað að hoppa á þessa lest og útbjó leiguíbúð á efri hæðinni sinni.

Nú hefur Erika, sem er þunguð, þó neyðst til að yfirgefa heimili sitt eftir að leigjendur lögðu leiguíbúðina í rúst og urðu sömuleiðis til þess að heimili Eriku varð fyrir gífurlegu tjóni.

Létu sig hverfa á meðan klósettið eyðilagði allt

Hún vakti athygli á raunum sínum í færslu á Twitter sem fór í mikla dreifingu. Þar sagðist hún ætla að segja fólki hryllingsreynslu sína af Airbnb, hvernig hún endaði kasólétt, heimilislaus og stórskuldug.

Hún hafi vaknað um miðjan apríl mánuð við lekandi vatn. Fyrst hélt hún að það væri rigning en sá svo að heiðskírt var úti. Þá sá hún að vatnið var að leka úr loftinu. Hún hafði keypt fasteign árið 2018 með tveimur íbúðum. Hún og eiginmaður hennar ákváðu að búa á neðri hæðinni, sem er minni, og leigja út efri hæðina sem var töluvert veglegri. Þau hafði til að byrja með verið með langtímaleigjendur en þegar þeir fluttu út í COVID hafi þau ákveðið að nýta Airbnb. Þau hafi ætlað að stækka fjölskylduna og vildu ekki vera bundin af langtímasamningi þegar barn þeirra kæmi í heiminn, því þá gæti fjölskylda þeirra komið og dvalið á efri hæðinni og hjálpað nýbökuðum foreldrunum.

Seinustu Airbnb gestirnir til að dvelja á efri hæðinni ætluðu að leigja íbúðina í mánuð. Þau yfirgáfu þó óvænt húsnæðið nokkrum dögum á undan áætlun án þess að láta nokkurn vita að þeim hafði tekist að stífla klósettið með blautþurrkum og úrgangi. Ekki nóg með það heldur höfðu þau reynt að losa um stífluna með því að fikta í vatnskassanum á klósettinu og þar með tekist að fá klósettið til að dæla látlaus út vatni. Í staðinn fyrir að láta Eriku vita létu þau sig hverfa svo hún fékk að uppgötva lekann þegar allt var um seinan. Bæði efri hæðin og neðri hæðin voru í rúst og báðar íbúðir óíbúðarhæfar. Ekki nóg með að vatn hafi lekið út um allt, heldur var þetta klósett vatn með saur og öðrum skemmtilegheitum.

„Það var klósettið sem bilaði og dældi stöðugt út vatni í rúmlega 15 klukkustundir,“ sagði Erika í samtali við ABC 13 fréttastofuna. „Það er ekkert eldhús, og engin baðherbergi sem virka.“

Ekki eins tryggð og henni var sagt

Erika hafði samband við Airbnb um leið og hún varð vör við tjónið. Þar fékk hún loðin svör. Erfitt var að ná í fyrirtækið í síma og virtist þeim alveg sama um stöðuna sem Erika var komin í. Fyrirtækið sagði henni að láta meta tjónið innan 14 daga kröfufrests sem fyrirtækið hefur. Hér var þú um tugmilljóna tjón að ræða sem ekki er hægt að leggja mat á með svo skömmum fyrirvara. Hún lét þurrka húsnæðið og sendi reikning fyrir því á leigjendurna. Það kom henni ekki á óvart þegar þeir neituðu að greiða. Erika treysti þá á Airbnb sem hafði lofað því að ábyrgjast allt tjón sem yrði á leiguhúsnæði af völdum leigutaka. Raunin er þó önnur.

Erika segir að tjónið sem og tekjutap af því að geta ekki leigt út íbúðina á efri hæðinni nemi alls um 42,4 milljónum. Airbnb hafði auglýst að þeir ábyrgðust tjón upp á hundruð milljóna, svo leigusalar hefðu enga ástæðu til að óttast um eignir sínar þar sem þetta væri tryggt upp í topp.

„Kemur í ljós að 90 prósent af þessu er ekki dekkað af tryggingunni. Þeir buðu mér aðeins 4,7 milljónir.“

Þetta var töluvert áfall fyrir Eriku sem hélt að Airbnb myndi bæta allt tjónið, ásamt húseigendatryggingu hennar.

„Húsið mitt er metið á 423,5 milljónir svo ég bara reiknaði með því að tryggingin frá Airbnb og húseigendatryggingin mín næðu utan um þetta. Raunin var þó önnur. Svo til ykkar sem eruð að íhuga að leigja út í gegnum Airbnb, skoðið allar tryggingar sem ykkur stendur til boða og kaupið þær allar.“

Hvar endar þetta?

Airbnb sendi yfirlýsingu til fréttastofu vegna umfjöllunarinnar þar sem fyrirtækið segist taka tryggingamál sín alvarlega. Sú hafi eins verið raunin í þessu máli og hlutlaus aðili sendur til að rannsaka og meta tjónið.

„En leigusalinn neitaði og sagði að tryggingafélagið hennar væri að styðja hana hvað varðaði tjónið og tímabundið húsnæði. Við höfum verið í stöðugu sambandi við leigusalann og munum halda áfram að styðja hana.“

Erika segist þó ekkert kannast við þennan meinta stuðning. Staðan hjá henni sé sú að hún búi við stöðuga óvissu.

„Hvar endar þetta? Þetta er óvissan sem ég bý við á hverjum degi. Hversu lengi mun ég hugsa um þetta og endurupplifa þessa uppákomu.“

Erika og eiginmaður hennar keyptu fasteignina árið 2018 og þó hún hafi verið virkilega dýr þá sáu þau fram á að geta borgað af húsnæðisláninu með því að leigja út efri hæðina. Eftir tjónið eru þó leigutekjurnar engar, enn þurfa þau að borga af láninu og þurfa þar að auki að greiða leigu til að hafa þak yfir höfuðið. Þau eru því ekki í stöðu til að bæta tjónið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Pressan
Fyrir 2 dögum

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu