Þetta þýðir að forfeður tegundarinnar okkar, Homo sapiens, hafa kunnað til verka og unnið tré.
Live Science segir að fornleifafræðingar hafi fundið trjádrumbana við Kalambo Falls, við Lake Tanganyika í norðurhluta Sambíu. Fornleifafræðingar hafa rannsakað þetta svæði síðan á sjötta áratugnum.
Áður höfðu steinverkfæri og viðarhlutir fundist. Munir sem hafa hjálpað vísindamönnum að skilja þróun manna og menningu þeirra í mörg hundruð þúsund ár.
Ný greining á fimm trjádrumbum bendir til að búseta þar hafi hafist mun fyrr en áður var talið og veitir innsýn í hugarheim forfeðra tegundarinnar okkar.
Í nýrri rannsókn, sem var birt nýlega í vísindaritinu Nature, skýra vísindamenn frá tréhlutunum sem þeir hafa fundið, þar á meðal tveimur sem fundust ásamt steinverkfærum og öðrum hlutum úr tré.
Aldursgreining á þessum tréhlutum sýnir að þeir tveir elstu eru 476.000 ára. Þetta eru því elstu þekktu tréhlutirnir sem menn hafa gert.