Netflix hækkaði nýlega áskriftarverðið í Bandaríkjunum úr 9,99 dollurum í 11,99. Fjölskylduáskriftir, sem gera fjórum kleift að horfa samtímis, hækkuðu úr 19,99 dollurum í 22,99 dollara.
Verðið hefur einnig verið hækkað í Frakklandi og Bretlandi.
Hækkun áskriftarverðs er ekki eitthvað sem áskrifendur eru ánægðir með en það gleður fjárfesta greinilega sem eru ánægðir með gengi fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi. Veltan var 8,54 milljarðar dollara sem er nokkurn veginn eins og sérfræðingar höfðu spáð.
Netflix hefur að undanförnu tekið hart á þeim notendum sem deila áskrift sinni með öðrum og það hefur átt sinn þátt í að áskrifendum hefur fjölgað. Nú eru áskrifendurnir um 247 milljónir á heimsvísu.