Leonard Allen Cure, 53 ára Bandaríkjamaður, var skotinn til bana af lögreglumanni í Georgíuríki í gær. Cure sat saklaus í fangelsi í Flórída í sextán ár eftir að hafa verið sakfelldur fyrir vopnað rán árið 2003.
Sakfellingin á sínum tíma byggði á afar veikum grunni og virtist það ekki skipta neinu máli að hann hefði örugga fjarvistarsönnun á þeim tíma sem ránið var framið. Hann hafði þó áður komist í kast við lögin vegna ráns og hlotið dóm fyrir. Honum var sleppt úr fangelsi í apríl árið 2020.
Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Cure hafi verið stöðvaður af lögreglu í reglubundnu umferðareftirliti í gær.
Lögreglumaðurinn er sagður hafa beðið hann um að stíga út úr bifreiðinni sem hann og gerði. Hann brást hins vegar illa við þegar lögreglumaðurinn tjáði honum að hann væri handtekinn. Fór svo að lögreglumaðurinn beitti rafbyssu gegn honum en það dugði ekki til að yfirbuga hann. Dró lögreglumaðurinn að lokum upp skotvopn sem hann beitti gegn Cure. Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að bifreið Cure var stöðvuð.
Seth Miller, framkvæmdastjóri Innocent Project í Flórída, staðfesti andlát Cure við AP-fréttastofuna. Samtökin, sem aðstoða fanga sem hafa verið dæmdir ranglega við að sanna sakleysi sitt, aðstoðuðu Cure í málinu á sínum tíma.