Þetta er samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtust í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences og Washington Post fjallar um á vef sínum.
Flest þessara svæða sem um ræðir eru í Mið-Austurlöndum, Asíu og Afríku.
Bent er á það að sumir, sérstaklega ungt fólk, geti dvalið í miklum hitum í nokkra daga í senn en þegar um ræðir lengri tíma, nokkrar vikur og þaðan af meira, verði þessi svæði óbyggileg fólki.
Samkvæmt skýrslunni gæti borgin Lahore í Pakistan orðið óbyggileg yfir hásumarið í að lágmarki tvær til þrjár vikur um miðja þessa öld. Um ellefu milljónir manna búa í borginni.
Svipað verður uppi á teningnum í borginni Al Hudaydah í Jemen þar sem gríðarlegar hitabylgjur gætu staðið yfir í 2-3 mánuði.
Aðrar borgir á þessum lista eru til dæmis Delhi, þriðja fjölmennasta borg heims, Hanoi í Víetnam, Dammam í Sádi-Arabíu, Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Bandar Abbas í Íran.